erfitt að segja nei...

Það getur verið erfitt að segja nei við Spiderman. Hann hefur verið að biðja um að fá að fara með dótið sem hann fær í skóinn og/eða sokkinn (útskýrt síðar) í skólann. Í gær tókst gamla manninum að fá hann til að skila sér dótinu í leikskólanum eftir að hafa farið og sýnt öllum vinum sínum forláta bíl. Í dag var það ekki séns. Það kom í ljós að það eru fleiri foreldrar sem eiga við þetta vandamál að stríða og þó að það sé lagt blátt bann við því að koma með dót í skólann nema á þartilgerðum dótadögum, eru vinirnir að koma með nýju bílana sína og monta sig. Sá gamli tók þá upp á því að kenna Spiderman að smygla. 'Settu bílinn bara í vasann og geymdu hann þar svo enginn sjái' - meiriháttar uppeldisaðferð...

Það var mikill spenningur í skvísunni í morgun. Í dag átti að fara í bæjarferð með nesti. Venjulega er ávaxtastund í skólanum enda nestistíminn rétt fyrir mat, einhverra hluta vegna. Í dag mátti koma með djús og samloku og sú stutta (sem er ekki stutt) var alveg með á hreinu hvað átti að vera á samlokunni. 'Skinka, gúrka, kál og sinnep' - SINNEP? Hún vill yfirleitt ekki sinnep... rétt nýfarin að borða það á pullurnar... eina skiptið sem ég set sinnep á brauð er þegar ég á malakoff...

Jólasokkurinn útskýring - okkur hjónum fannst frábær hugmynd að auk dagatals ættu krakkarnir okkar að eiga jólasokka. Þeir eru merktir frá 1 uppí 24 og við setjum eitthvað smáræði í sokkinn. Reyndar fer þetta að vera neyðarlegt gagnvart jóla því oft er Spiderman hrifnari af sokkagjöfinni en skógjöfinni (hmmm). Þurfum eitthvað að fara að skoða það.

Þ.

Sá fimmti, Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
- Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.

Þau ruku' upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti' hann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.

höf. Jóhannes úr Kötlum


Jólaball númer eitt...

Í gær var heljarinnar jóladansleikur á vegum leikskólans. Auðvitað ætlaði sú gamla að dressa Spiderman upp í sparifötin, glæný jakkaföt... abbababb... það gengur ekki. 4ra ára guttar á jólaballi eru ekki beint að sitja kjurrir og dansa þess á milli. Nei þeir eru meira í því að hlaupa um og skriðtækla hvern annan á göngunum. Af reynslunni (ég var einusinni 4ra ára gutti) klæddi ég drenginn í gallabuxur og jú hann var með bindi og í fínum jakka en ekki í sparijakkafötunum. Enda komst upp um ætlunarverk og ásetning drengsins þegar ég reyndi að troða honum í spariskóna (sem bæ ðe vei eru hvítir leddarar - ecco - geðveikir).
Spiderman: 'NEI pabbi, ekki í skó!'
Sá gamli: 'Hvað meinar þú? Þú getur ekki verið á sokkunum!'
Spiderman: 'Ég get ekki rennt mér í skónum, ég vil ekki skó'
En ég hafði betur í þetta skiptið og náði að troða honum í skóna enda jólasveinarnir á leiðinni inn á ballið. Og hvað er í gangi? Afhverju eru Hurðaskellir og Ketkrókur á barnaballi ÁÐUR en þeir koma til byggða? Mér finnst ótrúlegt að börnin sjái ekki í gegnum þetta. Þau eru kannski svo blinduð af græðginni sem við höfum alið upp í þeim... græðginni sem við höldum áfram að ala upp í þeim þrátt fyrir umræðuna í samfélaginu um gamla græðgisþjóðfélagið sem við viljum öll gleyma sem hraðast... það er bara svo erfitt... þetta er eins og að hætta að taka í vörina!

Eftir vel heppnað jólaball fórum við gömlu á jólatónleika KR og sílin sett í pössun til ömmu (það er svo mikið að gera á hátíð barnanna að þau eru alltaf í pössun). Stórgóðir tónleikar í alla staði. Það er eitthvað við karlakóra sem gerir það að verkum að ég sit stjarfur með gæsahúð á háu-tónunum (háværu). Mér finnst alltaf gaman að fara á tónleika hjá Karlakór Reykjavíkur og það skemmir ekki fyrir að afi Jón glansar fyrir miðju.

Eftir tónleikana sóttum við börnin og fengum auðvitað 'sad' með grænum baunum og öllu hjá ömmu A. Börnin voru svo drifin heim í háttinn enda annasöm helgi að baki. Eftir að hafa lesið hálfa söguna um Augastein (sem ég mæli eindregið með og nauðsynlegt er að lesa fyrir öll jól) varð ég að stressa mig á því að koma upp smá skrauti. Skvísan sofnaði um leið ein Spiderman var ekki á því. Ég held að jóli þurfi að fara að koma með jarðepli á drenginn. Vandamálið var bara að hann var búinn að vera rosalega góður alla helgina og marga daga þar á undan þannig að ég hefði sjálfur þurft að fara upp í Esju eða norður í Dimmuborgir og taka í lurginn á Þvörusleiki ef hann hefði gert slíka vitleysu.

Þ.

Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.

Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

höf. Jóhannes úr Kötlum 


Hvað er merkilegt við Stúf?

Afhverju er Stúfur svona vinsæll meðal margra? Hann er minnstur... ekkert annað. Er það ávísun á að vera mesta 'krúttið'? Hvað er málið? Það eru minnstar líkur á að hann skili einhverju í skóinn því hann er minnstur. Hann getur ekki haldið á jafnmiklu og bræður hans, það er ekki líklegt að hann komist í gluggana sem eru á efstu hæðum fjölbýlishúsa hvað þá nái upp í allar gluggakisturnar. En þrátt fyrir þetta er hann ótrúlega vinsæll (það hefur reyndar bara einn tekið þátt í könnuninni minni hér til hliðar og sá/sú kaus ekki Stúf sem kom mér svolítið á óvart).

Skvísan heldur mest upp á Stúf... allaveganna síðast þegar hún var spurð. Það er erfiðara að fá Spiderman til að ákveða sig, það er yfirleitt alltaf sá jóli sem er á leiðinni hverju sinni. Í fyrra var það reyndar Skyrjarmur sem var í miklu uppáhaldi hjá honum því hann sjálfur veit varla betri mat en vanilluskyr. Skyrjarmur heitir reyndar Skyrgarmur hjá honum núna og það er rakið til þess að í leikskólanum heitir hann líklega Skyrgámur en sá gamli kallar hann yfirleitt Skyrjarm.

En aftur að Stúf. Stúfur skildi eftir sig bréf enda varð hann að þakka fyrir glæsilega teikningu sem hann fékk frá skvísunni. Spiderman var ekki alveg að fatta þetta með skilaboðin... hvað var jóli að senda honum skilaboð? En allaveganna hann skildi eftir skemmtilega gjöf og það er fyrir mestu þessa dagana.

Þ.

Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

höf. Jóhannes úr Kötlum


Að fá hænu í skóinn...

Það var alger óþarfi að hafa áhyggjur... Giljagaur fattaði það að börnin gistu hjá afa og ömmu en ekki í sínum rúmum aðfaranótt laugardagsins.

Foreldrarnir fóru með vinnunni í jólahlaðborðsveislu. Veislan byrjaði reyndar uppúr hádegi þegar haldinn var hátíðlegur óvissubjórdagur. Óvissubjórdagur gengur út á það að allir kaupa 'skrítinn' bjór, eitthvað sem maður er ekki vanur að kaupa í kassa vís (s.s. ekki Stella, Egils, Víking, Carlsberg, Tuborg, osfrv), það verður að vera flaska og það verður að vera stór flaska. Þegar allir hafa laumast með flöskuna upp á kaffistofu í brúnum bréfpoka er dregið um flöskur og það má bara skipta innbyrðis ef maður fær sinn eigin. Nú eftir vinnu þurfti náttúrulega að þeysa heim og strauja því ég er ekki vanur að vera tímanlega í því að hafa mig til. Sílin sett í pössun til afa og ömmu og brunað að sækja farþegana sem ætluðu með okkur í kerru niður í bæ. Kokteill í bænum sem átti að vera hálftími en var meira einnoghálfur tími (týpískt) og að lokum sest til borðs á hinum rómaða veitingastað EinarBen. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið sami matseðill og ég fékk þarna um árið þegar ég fór með vinahópnum en mikið djö... er þetta gott. Það eina sem olli vonbrigðum var hreindýrið, stóð ekki undir væntingum. Þetta var heljarinnar veisla og rosalega gaman í alla staði.

Þegar við sóttum svo börnin daginn eftir fórum við að spyrjast fyrir um jólasveina heimsóknir. Að vanda var skvísan með allt á tæru en Spiderman hélt því fram að hann hafi fengið HÆNU í skóinn. Hænu!?!? kváði ég þá... já hann var viss um að hann hafi fengið hænu í skóinn. þegar betur var að gáð kom í ljós að hann hafi fengið Playmobil karl sem var ekkert líkur hænu. Þetta var bara það fyrsta sem skaut upp í kollinum á drengnum þegar hann gat ómögulega munað hvað hann hafi fengið frá jóla. Samt skrítið að það hafi verið hæna...

Þ.

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
- Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.

höf. Jóhannes úr Kötlum 


og hefst þá geðveikin fyrir alvöru...

Fyrsti jólasveinninn kom í nótt sem leið. Einhvern veginn hefur Stekkjastaur alltaf verið í mestu uppáhaldi hjá mér en ég hef ekki hugmynd um hvers vegna.

Spiderman var samt ekki alveg sáttur í gærkvöldi þegar hann átti að setja skóinn í gluggann... dagatalið var nefnilega ekki búið og hann var alveg viss um að jólasveinarnir kæmu allir í einu á Aðfangadag. Eftir þó nokkrar fortölur og lestur tveggja jólasveinasagna féllst hann á að þetta væri í lagi og líklega kæmu þeir einn og einn síðustu dagana fyrir jól.

Skvísan var hins vegar alveg með þetta á tæru og sendi gamla karlinn upp á háaloft til að ná í forláta jólaskó sem henni var gefinn fyrir 6, 7 eða 8 árum síðan. Hún var svo vel undirbúin að hún var búin að skrifa óskalista...
1. Mamma Mia bíómynd
2. Narnia 2 bíómynd
3. Mandarínu eða eitthvað smotterí

Í morgun kom í ljós að Stekkjastaur er ekki mikið í kvikmyndabransanum og liður 3 var fyrir valinu og auðvitað var hún alsæl með það. Spiderman var rosalega ánægður með kubba-fjórhjólið sitt en vildi ekki sjá mandarínuna, ætlaði bara að gefa fóstrunum í skólanum að smakka... hann var samt mest upp með sér að jóli skyldi hafa klárað kökuna og mjólkina.

Stóra spurningin í dag er sú hvort Giljagaur fatti að þau verða ekki í sínum rúmum í kvöld? Gamla settið er nefnilega að fara í jólaboð og sílin verða hjá afa og ömmu... hvað gerist? Við skulum vona að 'spennan endi ekki í skúffelsi'.

Þ.

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
- þá var þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
- það gekk nú ekki vel.

höf. Jóhannes úr Kötlum


2veir óstjórnlega góðir...

Skvísan á það til að missa út úr sér óstjórnlega fyndna brandara... hérna eru 2veir:

Afhverju seldi fiskurinn tölvunua sína?

Sv. Hann var svo hræddur við netið

Einusinni var ólétt kona. Hún vildi endilega vita hvers kyns barnið var og leitaði til Guðs. Guð gaf til kynna að um dreng var að ræða svo konan fór í það að mála herbergið blátt, kaupa blá föt osfrv.
Þegar barnið kom svo í heiminn kom í ljós að barnið var stúlka. Hvað heldur þú að hún hafi skírt barnið?

Sv. Guðlaug


Djö... getur maður verið ógeðslega þreyttur...

Ég skil þetta ekki. Ég er alltaf þreyttur. Sérstaklega síðustu daga. Held mér varla vakandi og er dofinn í útlimunum, hausinn að klofna og eyrun suða.

Einu sinni fyrir mörgum árum lenti ég í þessu og svaf sleitulaust í 17 klukkutíma. Konan sendi mig til læknis sem rukkaði mig fullt gjald eftir að hafa sjúkdómsgreint mig með 'síþreytu'!!
Kommon ég vissi það alveg...
Er það sjúkdómur? Síþreyta? Er hægt að fá eitthvað við því? Annað en kaffi?


Tengdó var 6tug á föstudaginn...

Tengdamóðir mín skreið í 6tugt á föstudaginn var. Við tengdasynirnir vorum búnir að rífast yfir því hvor okkar ætti að halda ræðu þegar hún sjálf dæmdi númer 2vö til að gera það með því að biðja mig um að stýra veislunni. Ég gat ekki sagt nei en mikið djöv*** get ég orðið stressaður á svona löguðu, sef ekki fyrir áhyggjum og var alla nóttina á undan að undirbúa þetta. Gamall draumur rættist þó. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef verið beðinn að stýra samkomu og ég gat stolið hugmynd vinar míns sem hann stal örugglega af einhverjum öðrum, og verið skálavörður í stað veislustjóra (sem er of líkt bankastjóra).
Eftirfarandi er ræðan mín (þurfti auðvitað að segja nokkur orð) - til hamingju tengdó!

28.11.2008

Tengdó 60 ára.

Kæru samgestir – skál.

Það að misnota ekki aðstöðu sína er að misnota aðstöðu sína, þ.a. ég ætla að troða mér hérna inn í ræðuröðina og fá að tala aðeins til afmælisbarnsins. Ég veit að ég er nýbúinn að segja að ég ætli ekki að tala mikið en ég verð að fá að segja nokkur orð.

Elsku tengdó. Ef mér skjátlast ekki þá eru liðin um 16 ár frá því við kynntumst fyrst. Það var reyndar svo stutt tímabil að ég man ekki eftir neinu skemmtilegu sem kom uppá þá... mér fannst bara merkilegt að ég er búinn að þekkja þig næstum því helminginn af minni löngu ævi.Samband okkar hefur nú samt verið nokkuð stöðugt undanfarin 12 ár eða svo og ég man ekki til þess að allir tengdamömmu-brandararnir eigi við í okkar sambandi, kannski nokkrir en ekki allir.Þegar ég lít til baka kemur fyrst upp í huga minn mynd af sjálfum mér; ungur, spengilegur, glæsilega vaxinn maður í topp-formi... 74 kg og afreksmaður í íþróttum. Fyrir rétt um 12 árum flutti þessi ungi og spengilegi maður inn á tilvonandi tengdaforeldra sína hérna í Hæðarbyggðina. Þið vitið nú öll hversu örlát og gestrisin þessi öðlingshjón eru og mörg ykkar vita líka að ég get, á góðum degi, tekið hraustlega til matar míns. Þetta er stórhættuleg blanda. Tengdó vill alltaf eiga afgang en ég vil alltaf klára. Ég sat því við og kláraði matinn og tengdó keypti alltaf meira næst... og þannig gekk þetta koll af kolli þar til ég gat ekki meir. Ég var snöggur uppí 84 + get ég sagt ykkur. Þetta var reyndar svo slæmt að mig dreymdi oft að ég væri fastur í Hans og Grétu ævintýri og ég væri Hans.

Þessi árátta er svo líka alin upp í dótturinni... og það endaði náttúrulega með því að stoðgrind líkamans fór að gefa sig og ég sleit hásin snemma á þessu ári. Meiðslin má rekja beint til þeirra kræsinga sem hefur verið haldið að mér undan farin 12 ár og þeirra rúmlega 20 kg sem komin eru umfram kjörþyngd afreksmannsins. Ég get í raun kennt tengdamóður minni um það að ég fór aldrei á Ólympíuleika.

Næst kemur upp í huga minn óbilandi þjónustulund þín gagnvart börnunum þínum. Þú þreyttist seint á að skutla þeim hingað og þangað og sækja aftur. Ef það þurfti ekki að skutla þeim þá skutlaðir þú einhverju til þeirra eða sinntir erindum hingað og þangað fyrir þau. Eftir því sem þau þroskuðust og fóru að verða sjálfstæðari, þurftir þú ekki að sinna þessu þjónustustarfi eins mikið en tókst þá upp á því að skutla mér... og ef ég skildi tengdason númer tvö rétt um daginn þá ertu enn að sendast fyrir hann. Það er eins og þú hafir endalausan tíma í sólarhringnum til að sinna þessu öllu. Ég held reyndar að þetta sé gert af umhyggjunni einni saman og ég veit að við erum öll verulega þakklát fyrir alla greiðasemina.

Þessi árátta er hins vegar ekki alin upp í dótturinni en ég þarf hins vegar að skutla henni hingað og þangað. Tengdó, ég verð að kenna þér um það líka.

Þriðja atriðið sem flaug í gegnum huga minn er einlæg ást þín á Sorpu. Þú ert alltaf á Sorpu. Mig er farið að gruna að þú farir með hverja fernu og hverja dós fyrir sig þarna suðreftir. Auðvitað er þetta eitthvað sem aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar en þú veist að það má alveg koma með meira en eina og eina dós í einu.

Þetta gleymdist líka í uppeldinu... reyndar held ég að dóttirin hafi verið óalandi á þeim tíma sem Sorpa var stofnuð. Hugtakið Sorpa og tilgangurinn hefur hins vegar síast inn hjá dótturinni – þér tókst það – en hún hefur aldrei komið á Sorpu og hver heldur þú að þurfi alltaf að fara? Mikið rétt, ég og það finnst mér líka vera þér að kenna.

Í fjóðalagi minnist ég angistar og kvíðasvipsins í augum þínum þegar líða tekur að vori. Þú vilt nefnilega halda garðinum þínum fínum en þér finnst jafnleiðinlegt að vinna í honum. Það er líka af því að þú tekur alltaf þau verkefni að þér sem öðrum finnst leiðinlegust eins og að reita arfann og hreinsa mosann milli gangstéttarhellnanna. Ég gleymi því vori seint þegar þú varst alveg bakk í öxlinni og treystir þér ekki í mosann... Karlinn var þá fljótur til að kaupa sérstaka mosabrennara græju.

Uppeldið skilaði þessu alla leið og dóttirin hefur aldrei tekið annað í mál en að eiga veglegan, helst 500 fm garð. Ég er samt meira eins og þú, vil alveg hafa garðinn en nenni kannski ekki að liggja á hnjánum hálft sumarið að reita arfa.

Fimmta og síðasta atriðið í þessari ófullkomnu upptalningu verður að tengjast Bjargarstöndunum. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru Bjargarstandar það sem í daglegu tali kallast nammistandar. Þegar maður týnir tengdó í útlöndum þá þarf maður bara að þefa þessa standa uppi og nánast án undantekninga finnst hún fljótlega í nágrenninu. Einu skiptin sem þetta getur brugðist er á handverksmörkuðum því þar er hún í essinu sínu.

Þrátt fyrir það sem hér að framan er talið þá get ég ekki hugsað mér betri tengdamömmu. Ég get alltaf leitað til þín þegar dóttirin ofhleður mig verkefnum og þú tekur alltaf upp minn málstað í þeim ágreiningsefnum sem upp koma í hjónabandi mínu, sem er gott... við eigum þannig hvort annað að því við þurfum að búa með þeim!

Elsku tengdó – takk fyrir mig og skál.


Vil þakka kærlega fyrir mig og mína...

Eins og ástandið er í dag gerði ég nú ekki ráð fyrir að fá eftirfarandi framgengt.

Þannig er mál með vexti að vel fyrir sumarið pöntuðum við skáp í forstofuna frá fyrirtæki hér í bænum sem kennir sig við Ormssyni. Við erum nú enn í því að lappa upp á kofann sem við byggðum og höfum verslað töluvert við þetta fyrirtæki enda með einvalaúrval vörumerkja í innréttingum og heimilistækjum.
Við höfum nú ekki alltaf verið jafnánægð með þjónustuna í gegnum tíðina en tiltölulega ánægð með vöruna. Þannig er hægt að segja frá því að eldhúsinnréttingin okkar kom á 6 mánuðum, vantaði mikið í hana, vitlaust afgreitt og svo koll af kolli, en þar sem við erum ánægð með gæðin og útlitið og erum búin að heyra verri sögur af öðrum eldhúsinnréttingasölum þá fannst okkur við bara í fínum málum.
Aftur að skápnum. Við pöntuðum skáp sem samanstendur af rennihurðum frá lofti niður í gólf og hillum og öðru involsi þar frístandandi fyrir innan. Vegna skekkju í veggjunum (í nýja húsinu - já) þá var okkur ráðlagt af 'sérfræðingum' fyrirtækisins að hafa með í kaupunum fleka all ógurlega til að smella við enda hurðanna.
Skápurinn var svo allt sumarið að ferðast til landsins og 'bara' viðskiptafræðingurinn ég klambraði svo skápnum loksins upp. Ég var þó ekki allhress með frágangsflekana því tveir þeirra voru með kantlímingu en tveir ekki. Ég þurfti því að biðja um kantlímingu. Það tók uppundir 2vær vikur að fá hana til landsins og auðvitað var pöntuð hvít líming á hnotuna mína. Ég þurfti því að panta aftur. Nú kom 'réttari' litur en meira út í tekk en hnotu þannig að greinilegur munur var á.
Eftir frekari kvartanir ákvað fyrirtækið að senda til mín smið einn mikinn og hugaðan. Hann fékk svo hland fyrir hjartað yfir klúðrinu, ekki það að viðskiptafræðingurinn hafi klúðrað uppsetningunni heldur hvernig í ósköpunum einhver hefði getað ráðlagt okkur þetta og selt. Þessi sami smiður tók það að sér að tala við sína yfirmenn því þetta gengi ekki. Þetta var snemmhausts.
Síðan höfum við verið að bíða og ýta á eftir viðbrögðum frá Ormssyninum. Síðast ýttum við við þeim rétt eftir að bankarnir féllu og gjaldeyrisskömmtun stóð sem hæst. Hvað haldið þið að hafi gerst í gær? Jú - smiðurinn hugprúði bankaði uppá með nýja skápahurð og rennur í stíl, reif niður gamla skápinn, setti þann nýja upp, fékk sér kaffi og kvaddi. Allt eins og blómstrið eina og allir kátir og allt þetta umstang kostaði okkur ekki krónu.
Kann ég Ormssyni þakkir fyrir þjónustuna. Ég bjóst nefnilega alveg við því að þurfa að lemja hnefum í borð og æsa mig í búðinni yfir þessu öllu saman og að þeir myndu harðneita að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir mig nema á endurreiknuðu gengi krónunnar og hækkandi verði iðnaðarmannsins. En ég slapp við það.

Þ.


Á erfiðum tímum þarf styrka stjórn!

Aðalfundur foreldrafélags Hraunvallaskóla var haldinn í gærkvöldi. Í skólanum eru um 750 börn en einungis rúmlega 40 foreldrar... bíddu... þetta er eitthvað skrítið... jæja allaveganna mættu um 40 foreldrar á aðalfund foreldrafélagsins og þar af 6 meðlimir stjórnarinnar og 6 meðlimir stjórnar foreldrafélags leikskólans.

ER FÓLKI ALVEG SAMA UM STARFSVETTVANG BARNANNA SINNA?

Úr götunni minni voru þó allaveganna 7 fulltrúar - ansi góður árangur það m.v. framangreint (750 börn/40 foreldrar).

En að fyrirsögninni. Konan mín er í stjórn foreldrafélagsins og fyrir einhvern óskiljanlegan misskilning sem varð til í gríni, tók ég þá yfirveguðu ákvörðun að skipta við hana þ.a. við skiptum með okkur stjórnarsetunni, eitt ár hvort. Ekki nóg með það heldur ákvað ég líka í einhverju brjálæðiskasti að það væri rosalega góð hugmynd að ég yrði formaður...

Ég er semsagt nýr formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla. Ég réttlæti það fyrir sjálfum mér með því að tyggja á því að á erfiðum tímum þurfi sterka stjórn.

HVAÐ VAR ÉG AÐ SPÁ?

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband