Kerlingin er 'kreisí'

Þá er ég kominn til Höfðaborgar í Suður-Afríku og þeir tala ekki sænsku hérna.

Lagði af stað frá Gautaborg í gærmorgun og stoppaði nokkra klukkutíma í London. Það sem bjargaði stoppinu þar var að gamall vinur og kollegi pikkaði mig upp á LHR og fór með mig í 'löns' og svo heim til sín í kaffi áður en hann blakaði mér aftur upp á LHR fyrir næturflugið til CPT.

Flugið hingað suðreftir var alger horror og byrjaði á bilun í loftræstikerfinu svo við sátum í dósinni og biðum í steikjandi sveittum hita. Vélin var nánast smekkfull og ég svaf varla meira en 15 mínútna dúra milli þess sem einhver labbaði utan í mig, smellti sætinu í andlitið á mér eða bankaði í sætið mitt. Djöv... fara þessir snertiskjáir í flugvélum í taugarnar á mér. Allaveganna þegar ég kom loksins eftir um það bil 11 tíma flug var ég ekki enn búinn að fá upplýsingar um á hvaða bílaleigu bíllinn sem ég er með átti að bíða OG það er ekkert internet samband á vellinum. Það veitti mér því ánægju að vekja gaurinn sem ég á að fara að vinna með á morgun og á að sjá um þessa hluti, til þess að spyrja hann enda klikkaði hann á þessu.

Þeir keyra öfugu megin í SAfríku. Ég er ekki vanur því og það hjálpar ekki að vera á beinskiptum bíl. Rúðuþurrkurnar fara óþægilega oft af stað nálægt beygjum en það er gott að vera með GPS meðferðis. Hvernig fóru menn að í svona ferðum áður en hægt var að fá lánað GPS og vera ekki með GSM? Ferðin gekk samt vel og náði að vera á réttri leið allan tímann. Það fyrsta sem blasir við manni við flugvöllinn er fátækrahverfi og þegar ég hugsa til baka þá er þetta sennilega fyrsta svona alvöru fátækrahverfi sem ég sé 'læf'. Það var samt merkilegt að inná milli gat maður séð glitta í nýlega bíla, hvort sem það er stíllinn að keyra flott á kostnað heimilisins hérna í SAfríku, eða hvort þessir bílar eru bara í 'láni'??

Á leiðarenda komst ég. Bý í litlu úthverfi sem heitir Durbanville, fyrir þá forvitnu sem vilja fletta því upp. Hér er allt smekkfullt af vínekrum og flottum stöðum og aðeins neðar í götunni er golfvöllur. Ætli ég reyni ekki við hvort tveggja við tækifæri. Bústaður minn er meira gistiheimili en hótel. Það er all vígalega girt með háum veggjum, rafmagnsgirðingu og járnhliðum en ansi heimilislegt að öðru leiti. Kerlingin sem á þetta greinilega og býr hérna líka, er hins vegar kreisí. Hún sýndi mér herbergið mitt og hvar allt væri og svona í morgun en fór svo að lýsa staðháttum og leiðum á hina og þessa staði, hvaða götur væri best að fara þegar maður ætlaði niðrí bæ og hvaða götur maður ætti að fara þegar maður ætlaði upp á fjall og hvaða götur maður ætti að fara þegar maður fer í vinnuna og svo framvegis. Þetta var bæði langur og leiðinlegur fyrirlestur sem byrjaði og endaði á því að ég sagði henni að ég væri með GPS. Svo tók nú alveg steininn úr hérna í kvöld þegar hún birtist með 'lasanja' í dyrunum. Hún var ekki viss hvort ég væri búinn að borða og ákvað að tékka á mér. Mig langar ekkert sérstaklega í þetta 'lasanja' og ég borðaði ágætlega kl 1600 þ.a. snakk dugar mér bara í kvöld (já ég er eitthvað slappur líka). Ég vildi samt ekki vera ókurteis og tók bakkann og sagðist ætla að sjá til hvort ég myndi borða eða ekki en að hún skildi hafa það á hreinu að ég pantaði þetta ekki. Þá óð hún hérna inn og þurfti að sýna mér hvernig ég gæti dregið fyrir gluggana og hvernig ég gæti skipt um sjónvarpsrásir og svona ýmislegt smálegt sem greinilega er ekki 'kommon novleds' hjá hennar gestum. Ég þurfti hálfpartinn að ýta henni út. Hálf skrítið eitthvað en hún meinar sjálfsagt vel með þessu...

Þessar 3jár vikur verða eitthvað...

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband