Karlinn er svo langt frá því að vera í lagi...

Ég er nú bara einu sinni þannig gerður að þegar ég sef þá sef ég bara og það er fátt sem truflar það og ekki margt sem vekur mig nema ef vera skildi konan. Konan hefur nefnilega tekið það að sér að stilla klukkuna á heimilinu og pota mér framúr á morgnana. Nú þegar hún er í orlofi hefur það komið í minn hlut að koma skvísunni í skólann og Spiderman I í leikskólann. Ég held að ég standi mig bara ágætlega í því þó ég fái stundum að heyra það að fatavals-sjatteringarnar séu kannski ekki alveg fullkomnar og það gangi ekki að senda skvísuna í skólann með slegið hárið dag eftir dag. En þau komast í skólann og það er nú fyrir öllu.

Spiderman II er ekki alveg að fatta það að það eigi að sofa eins og pabbinn á nóttunni. Ekki það að ég verði mjög var við það því ég vakna nú ekkert þó hann sé að umla þetta og ég hef ekki græjurnar til að sinna hans brýnustu þörfum. Það kemur þó fyrir að konan verður ansi þreytt á þessu brölti og pikkar (varlega orðað) þá í mig og biður mig um að aðstoða. Það er ekkert nema sjálfsagt mál að sinna drengnum, rétta honum snuddur, færa hann milli rúma, strjúka honum eða vagga í svefn. Ég get alveg og hef alveg gert þetta nokkrum sinnum. Það óhuggulega við þetta allt saman samt er að ég man yfirleitt ekki eftir að hafa staðið í þessu stússi daginn eftir.

Spiderman I á það til að lauma sér uppí um miðjar nætur. Skiptunum fer fækkandi því sú var tíðin að drengurinn náði ekki að sofa heila nótt í sínu herbergi og kom þá gjarnan oftar en einusinni yfir í okkar herbergi. Þetta truflar mig ekki því ég sef bara. Konan sefur ekki eins vel við þessar aðstæður og á það þá til að pikka (varlega orðað) í mig og biður mig að fara með drenginn yfir í hans eigið herbergi. Það er minnsta málið og ég sé alfarið um þessa flutningsþjónustu á mínu heimili. Það óhuggulega við þetta allt saman samt er að ég man yfirleitt ekki eftir að hafa staðið í þessu stússi daginn eftir.

Skvísan er nú eins og pabbi sinn og sefur nú bara fastar ef eitthvað er. Það þarf ansi mikið til þess að hún vakni upp og það þarf ansi mikið til að vekja hana á morgnana yfir höfuð.

Liðna nótt lenti ég hins vegar aldeilis í því. Spiderman I laumaði sér yfir um leið og Spiderman II vaknaði til að fá sér sjúss. Við þetta tækifæri pikkaði (varlega orðað) konan í mig og bað mig um að fara með Spiderman I yfir í sitt herbergi. Það sem ég heyrði var hins vegar 'Klukkan er 20 mínútur yfir' sem á venjulegum degi þíðir 'Drullaðu þér framúr karl og vektu krakkana í skólann'. Það skipti engum togum, ég strunsaði með drenginn yfir í hans herbergi og óð inn í herbergi skvísunnar og vakti hana og sendi hana fram til að bursta tennur og hafa sig til. Þegar hún var vöknuð og farin fram og búin að bursta og svona kom konan fram og spurði mig hvað í ósköpunum ég væri að gera, klukkan var 04:00.

Það er nefnilega ekki bara erfitt að vekja mig... ég er alveg kex þegar ég er svona nývaknaður eða ekki vaknaður.

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband