2010-06-01
Ferðasagan
Sú yfirvegaða ákvörðun var tekin af karlinum í vetur að fjárfesta í utanlandsferð handa frúnni í afmælisgjöf. Ef þessi ákvörðun hefði verið sett í nefnd hefði hún líklega aldrei orðið að veruleika (þess má geta að málið var svæft í nefndum í 5 ár).
Allaveganna... ferðinni var heitið til fitubollulandsins (USA), þangað sem ég hef nú bara einusinni komið áður og reyndar frúin bara komið þar við sem krakki. Í landi allsgnægtanna eigum við góða vini og því vísa gistingu sem stólað var á.
180510
Spiderman II var búinn að vera eitthvað órólegur undanfarna daga og Skvísan hélt því fram að hann léti svona af því að hann finndi á sér að mamma hans væri að fara, hann bara fattaði ekki að hann ætti að fara með. Spiderman II vaknaði því um kl 06 að ísl. tíma þennan morgun. Skvísan og Spiderman I fóru í skólann þ.s. Spiderman I tilkynnti hátíðlega að í dag væri frábær dagur af því að mamma hans og pabbi væru að fara og afi og amma stjóri ætluðu að koma og passa í viku (hann á það til að fá ristað brauð með sultu og heitt kakó í morgunmat hjá ömmu sinni).
Flugum svo út seinnipartinn, 6 tíma til MSP. Fengum aukasæti fyrir Spiderman II sem svaf ekki nema klukkutíma í vélinni. Kaninn er svo klikk í tékkinu til landsins að ég hélt að við kæmumst ekki mikið lengra en í forsalinn á vellinum áður en við þyrftum að taka flugið heim.
Eftir flugið var bíll tekinn á leigu og tæplega 5 tíma keyrsla tekin í einum rikk og 5 RedBull á bílstjórann. Ekki hægt að segja annað en að bílstjórinn hafi verið sæmilega útúrtjúnaður þegar hann steig út úr bílnum á áfangastað u.þ.b. 23 klukkustundum eftir að hann vaknaði um morguninn. Ekki vantaði gestrisnina hjá vinunum sem tóku okkur fagnandi, gáfu okkur að borða og útbjuggu gestaherbergið eins og á flottasta hóteli.
190510
Spiderman II var lengur en sólarhringinn að átta sig á tímamismuninum. Karlinn var því kominn á lappir rúmlega 05 að staðartíma eftir þá rúmlega 3ja tíma svefn. Yndælis veður og spenningur í loftinu varð til þess að ég hefði ekki farið í rúmið aftur þó ég hefði fengið borgað fyrir það (eða...). Heimilisfólkið þurfti vitanlega að sinna sínu og heimasætan á bænum átti að fara í skólann. Við Spiderman II fengum að fara með og það var gaman að labba um hverfið og átta sig á aðstæðum, fá að kíkja á söngskemmtun í amerískum grunnskóla og kíkja í fáránlega girnilegt bakarí.
Dagurinn var svo tekinn í rólegheitum með rölti um háskólabæinn Madison þ.s. þeir kunna víst að skemmta sér líka. Ís tekinn í ísbúðinni frægu sem mælist til þess að ef fólk er að leita sér að hollustu þá eigi þeir að fara annað og fá sér gulrót því þeir bjóða ekki upp á neitt ló kalorí, ló sjugar, ló fatt, ló noþþing. Öl við vatnið og á fleiri stöðum og chill í garðinum og veisla að hætti hússins um kveldið.
Frábær dagur.
200510
Spiderman II aðeins farinn að átta sig og svaf fínt. Dagurinn tekinn í s.k. átletti. Fengum fylgd og sætsín um sveitina og svo var bara látið vaða í verslanirnar. Tíminn var nú mislengi að líða hjá okkur hjónum en allt hafðist þetta. Kostakaup gerð á alls konar merkjavöru því þó að dollarinn sé 130 kall þá er samt töluvert ódýrara að komast í svona merkja-átlett.
Aftur endað í rólegheitum í garðinum hjá okkar kæru vinum og ég ætla nú ekki að ræða veisluna sem haldin var um kveldið. Nautalund frá Amish-fólkinu. Besta nautakjöt sem ég hef nokkurn tíma fengið. Það er gott að húsbóndinn er ekki þekktur fyrir annað en að taka til matar síns því annars hefði þetta litið illa út. Það sem ég gat étið...
210510
Litla fjölskyldan lagði af stað til Chicago. Það er nefnilega ansi merkilegt að ég hef komið tvisvar til US og í bæði skiptin til Chicago en aldrei til NY eða Boston eða þessar helstu borgir sem landinn heimsækir. En bílferðin tók sína stund og hitinn var sæmilegur. Spiderman II fannst þetta ekki skemmtilegur dagur. Hann virtist líka vera hálf slappur og þá er ekki gaman að hanga í bíl í rúma 3já tíma. Umferðarsultan var verri en þegar vegagerðin tekur upp á því að malbika aðalumferðaræðar Reykjavíkur og nágrennis milli kl 16 og 18 á föstudögum.
Hótelið sem við fengum var magnað, staðsett miðsvæðis og allt hið snyrtilegasta. Herbergið rúmgott og uppi á 37undu hæð. Æði. Seinniparturinn fór í að rölta um aðalgötuna og helsta nágrenni og finna steikhús. Spiderman II var orðinn ansi þreyttur undir það síðasta svo við fórum snemma í háttinn.
220510
Dagur 2vö í Chicago. Spiderman II orðinn lasinn. Var með töluverðan hita um nóttina og svaf ekki alltof vel. En út skildi arkað og við af stað. Spiderman II náði að sofna vel í kerrunni og frúin fékk smá útrás í einhverjum verslunum fyrir hádegi. Svo var smá ævintýri sem hefði mátt koma í veg fyrir en allt reddaðist þetta nú á endanum. Mad-fjölskyldan kom svo og hitti okkur seinnipartinn, um það leiti sem ég var að taka myndir af gluggaþvottamönnunum á næsta húsi. Ég var sem fyrr segir á 37undu hæð en tók myndir af þeim uppávið. Þetta er náttúrulega ekki eðlilegt. En jæja. Með vinunum örkuðum við meðfram vatninu að safnahúsi miklu þ.s. við skoðuðum m.a. þróunarsögu jarðarinnar og jarðarbúa. Einhver skilmisingur var við miðakaupin þ.a. við fengum ekki aðgang að ánamaðkahúsinu og áætlaður kokteill kom í veg fyrir að við næðum að leiðrétta það.
Eftir safnið var gengið í gegnum garðana til baka í bæinn og ákveðin ostakökuverksmiðja heimsótt. Þessi veitingastaður var eins og tíramísú að innan, frekar fyndið, en maturinn góður og bjórinn vel þeginn. Ekki hægt annað en að sofna sæll eftir þá útreið.
230510
Dagur 3jú í Chicago. Egg og beikon og allt hitt ruglið í morgunmat annan daginn í röð. Það er ekki skrítið að þetta sé kallað fitubollulandið, en mikið djö... er þetta nú gott. Ég væri sennilega nær 200 en 100 ef ég byggi þarna.
Sigling tekin í 35 stiga hita og sól um ána og vatnið. Meiriháttar og algert möst í svona ferðum. Spiderman II var samt ekki að fíla þetta svona til að byrja með enda lasinn og pirraður í hitanum. Hann var sáttari á neðri hæðinni í skugga og loftkælingu. Eftir siglingu var strollað meira um bæinn og margt skemmtilegt skoðað og skrafað.
Seinnipartinn var svo tími kominn á heimferð, já sko heim til Madison, því manni leið svo vel þarna að maður kallaði það bara að fara heim eftir fyrsta daginn. Bílferðin tók á Spiderman II en þó ekki eins löng og fyrri ferðir. Þegar heim var komið var farið í Indian-teikavei og með þeim betri sem maður kemst í. Bjór með því? uuu já.
240510
Farið að síga á seinni hlutann. Síðustu útréttingar teknar með trompi, einhverjar reddingar en ekkert golf. Sennilega það eina sem ég sakna að hafa ekki komist í og það var golf. Annars var dagurinn frekar rólegur í minningunni en endaði á brugghúsi bæjarins þ.s. við nutum matar og 14 tegunda af bjór. Ég er ekki að grínast með þetta. Bjórinn í Madison er sjúklega góður. Ef ég væri ekki nær 200 út af eggjum og beikon morgunmatnum með pönnukökunum, þá væri ég það út af bjórnum.
250510
Heimferðardagur. Auðvitað saknar maður Skvísunnar og Spiderman I, en mann langar ekkert heim... hefði kannski verið betra að senda bara eftir þeim? Við áttum allaveganna frábærar stundir með frábærum vinum á frábærum stað. Þurftum þó að leggja af stað fyrir hádegi þennan þrumuskýjaða þriðjudag. Við fengum nefnilega alla flóruna, sól og blíðu, sól og raka, rigningu og þoku, þrumur og eldingar og meiri sól. Bílferðin uppeftir til MSP virkaði styttri. Kannski af því að við keyrðum í björtu alla leið eða kannski af því að bílstjórinn var kominn í takt við umferðarhraðann og fór minna eftir skiltunum? Hver veit? Við náðum allaveganna að fá okkur snarl áður en við logguðum okkur inn á völlinn því það var búið að vara okkur réttilega við því að ekki fengist ætur biti þar inni. Auðvitað fórum við þá í stærstu verslunarmiðstöð í heimi, Mall of Amerika sem staðsett er steinsnar frá vellinum. Við höfðum nú hvorki vilja né tíma til að labba þar mikið um en maður gat heyrt í rússibananum í tívolíinu sem er þarna inni. Kaninn er klikk.
Á flugvellinum máttum við svo dúsa við ekki neitt í tæpa 3já tíma. Fengum að vita að vélin var full sem leiddi af sér þá staðreynd að við þyrftum einhvern veginn að koma okkur 3remur fyrir í 2veimur sætum. Það jákvæða við þetta allt saman var samt að vinur minn góður flaug okkur heim. Karlinn fékk meira að segja að sitja frammí við flugtak og lendingu sem var ákveðin lífsreynsla og bara jákvæð. Ég sá reyndar að flugmenn nota ekki helminginn af tökkunum og mælunum sem þeir eru með fyrir framan sig og ég efast um að þeir virki yfir höfuð.
260510
Lending í KEF og brunað heim og náðum Skvísunni og Spiderman I fyrir skóla. Það er ekki ljóst hver var kátastur í húsinu, við, börnin eða afi og amma sem komust heim í pásu.
Dagurinn leið svo með því að halda sér vakandi ef frá er skilinn rúmur klukkutími sem fór í svefn á pallinum. Það er svo gott að sofa úti. En með vökunni náðum við að snúa okkur í réttan gír strax næsta dag.
Þessi ferð var ævintýri og frábær í alla staði.
Takk fyrir okkur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.