Þá er brandarakeppnin hafin. Karlinn kominn til Riyadh í Sádí Arabíu. Frekar skrýtin tilhugsun en staðreynd.
Ferðalagið hófst í stórhríð (á köflum) í KEF og dags stoppi í London. Það var ágætt að geta fyllt á tankinn í London (höfuðborg Kína) og eyða degi í 16 stiga hita og logni og blíðu með tjallanum. Morguninn eftir var svo lagt í langferðina.
Flugið var frekar leiðinlegt, þröng vél, vondur matur, lélegt 'enterteinment' og þar fram eftir götunum... en hátíð miðað við það sem koma skyldi. Það er semsagt engin lygi að þeir láta mann finna fyrir því hver ræður þegar maður fer í gegnum 'immigreisjon' hérna í Sádí. Endalausar raðir af fólki að reyna að komast inn í landið og ég þar á meðal með alla mína pappíra útfyllta. Ég ætlaði fyrst að fara í 'först tæm arrævals' röðina en sá fljótlega að enginn úr minni vél var þar og sú röð var lengst og í henni voru bara Pakistanar og Indverjar. Ég var því snöggur að skutla mér í röðina með vesturlandabúunum. Röðin silaðist... hægt... mjög hægt, og eftir rúman klukkutíma þegar ég var ca 5ti í röðinni, fór gæinn í tékkinu bara. Hann var reyndar búinn að vera meira í því að senda sms í símanum sínum en að afgreiða en hann hafði samt afgreitt nokkra. Svo kom enginn í staðinn næstu 45 mínúturnar og maður stóð bara þarna. Á tímabili var enginn að afgreiða. Svo horfði maður uppá þessa smákónga henda saklausum lýðnum aftast í næstu röð þegar þeir voru við það að fá afgreiðslu. Eins voru sumir þeirra með eitthvert raða 'fettiss' og voru endalaust að skipa mönnum að fara lengra til hægri eða vinstri. Ótrúlegt að horfa uppá þetta. Að lokum kom einhver öskrandi þarna að röðinn minni og kallaði 'Vísa, vísa, först tæm vísa' og ég passaði mig að segja ekki neitt því ég vildi ekki fara í 'först tæm' röðina eftir að hafa staðið þarna í 2vo tíma... á endanum tók hann passann og henti mér framfyrir röðina þ.s. einn sá pirraðasti sat... sjitt... var það eina sem ég hugsaði. En viti menn... hann stymplaði mig inn, tók ekki mynd og ekki fingraför og leit ekki á 'bordingkartið' sem ég var búinn að fylla samviskusamlega út...
Afhverju þessi bið þá?
Allaveganna, út úr flugstöðinni fór ég og beint í hraðbanka og beint í SIMmkortið og einhvers staðar þarna á milli var ég líka kominn með leigubíl...
Umferðarmenningin er sérstök en þetta var eðalbílstjóri sem skutlaði mér upp að dyrum og lýsti fyrir mér því helsta sem fyrir augu bar. Sem er kostur. Annar kostur (eða ekki) þá vildi hann endilega fá í vörina hjá mér líka, sem var auðsótt en ég lánaði honum ekki snudduna samt. Fljótlega var hann farinn að rymja ógurlega og líklega lá honum á að komast á klósettið því hann keyrði eins og fjandinn síðasta spottann.
Hótelið lítur vel út. Stórt herbergi og allt hið snyrtilegasta. Það er hægt að horfa á bíómyndir með arabískum texta og fá sítrónute á hótelbarnum. Nettenging í fínu lagi og ekkert mál að 'kommjúnikera' við heimalandið.
Vinnan byrjaði svo í dag... eftir 4ra tíma svefn og langt ferðalag... óborganlegt... meira um það síðar.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.