2011-03-25
Handóverdei og hittingur í KSA
Þá eru komnir 2veir vinnudagar. Reyndar er fimmtudagur bara hálfur vinnudagur í KSA og frí á föstudögum (bænadagur) en ég ákvað samt að taka vinnuna. Asnalegt að koma alla þessa leið og fara svo bara í frí eftir 4 eða 5 tíma í vinnunni.
Fimmtudagurinn var svokallaður 'handóverdei' þ.s. ég hitti 'kollega' frá UK og hann reyndi að setja mig inní hlutina. Ég held að það hafi allaveganna gengið ágætlega. Við vorum reyndar til að verða 3jú en flestir aðrir voru farnir milli 12 og 13. Það var ágætt að hafa fyrsta daginn sæmilega stuttan eftir aðeins um 3ja tíma svefn.
Ég komst að því að Sádinn er í miklum minnihluta á þessum vinnustað og þeir gera ekki neitt, eða allaveganna mjög lítið. Það er mikið af Indverjum í verkstjórnarstöðum og aðallega Filipínar í vöruhúsavinnunni. Það er ekkert mál að fá þá til að vinna þó að Filipínarnir skilji ekki mikið og tala minna. Indverjarnir eru ágætir sumir hverjir en Sádarnir eru bara í ruglinu. Ef það eru mál sem þeir eiga að sjá um þá tekur það endalausan tíma til að fá þá til að átta sig á því að það er á þeirra ábyrgð að framfylgja verkunum og þó þeir séu komnir með það á hreint þá gerist ekki mikið. Stór hluti af vinnunni minni fer því í það að reka á eftir liðinu í að gera það sem þarf að gera.
Fimmtudagar eru líka fjölskyldudagar í mollunum og á fleiri stöðum. Við ætluðum að fá okkur snarl eftir vinnu í molli sem er hér rétt hjá hótelinu en fengum ekki inngöngu fyrr en eftir langt tuð og gefin loforð um að hlaupa beint upp á 3ju hæð, éta og út aftur (tókst við inngang 3jú). Þegar við svo komumst inn þá byrjaði bænatíminn. Þá er ekkert múður, þeir loka bara öllu í 30-50 mínútur. Svo við biðum en fengum svo loks mat.
Eftir mat var aðeins rölt um en svo fór ég í það að reyna að vekja vin minn ME sem kom með flugi snemma um morguninn. Ég var nú eiginlega sofnaður sjálfur þegar hann loksins svaraði. Það er merkilegt að hitta vin sinn í Riyadh. Auðvitað var farið út á lífið (eins langt og það nær í KSA) og ákveðið að hittast á sunnudaginn. Á sunnudaginn ætla ég að taka frí.
Föstudagur er venjulega frídagur en ég mætti, enda vildi ég láta sjá mig á staðnum svona nýkominn og það var von á sérfræðingi til að rannsaka stærsta vandamálið í húsinu sem er mér þannig séð óviðkomandi og það er opnun á búð á sunnudaginn og vörurnar þurfa að komast út úr húsinu og ég vildi tryggja það. Fyrri hluta dags var ég með þeim sem kallast vöruhúsastjóri (hann byrjaði fyrir 10 dögum og hefur aldrei séð kerfið). Aðeins að fara yfir 'beisik'. Það voru ekki margir í vinnunni í dag en nóg samt þ.a. maður stoppaði eiginlega ekki og þegar það var ljóst að það stæði tæpt að ná því að koma vörunum út fyrir nýju búðina út af þessu fyrrgreinda 'aðalvandamáli' þá endaði það með því að ég var ekki farinn fyrr en kl 19. Sem er svolítið langur dagur þegar maður náði bara rúmlega 4ra tíma svefni nóttina áður og 3ja tíma svefni nóttina þar áður. En þegar ég kom á hótelið sá ég að allt hafi verið afgreitt og allir kátir, þ.a. það var gott að ég gat aðstoðað aðeins.
Reyndar byrjaði ég á því að skipta um herbergi þegar ég kom upp á hótel. Fyrra herbergið, 127 ef einhver man eftir því úr 5ta bekkjar ferðinni um árið - var illa lyktandi af reykingarstybbu auk þess sem reykt var á hæðinni. Ég skipti því yfir í reyklaust herbergi. Það er smá munur en ekki mikill. Ég er viss um að þeir reykja hérna líka.
Efir að hafa spjallað heim nokkra stund, fór ég á röltið og fékk mér kvöldsnarl. Það eru eiginlega bara flottir ressar hérna eða skyndibiti. Skyndibitinn varð því fyrir valinu en tók þó sénsinn á innlendri keðju í þetta sinn sem seldi nanbrauð (stærsta nanbrauð sem ég hef á ævinni séð). Þegar ég var búinn og ætlaði að rölta mér út fannst mér skyggnið heldur lélegt. Það sést varla milli húsa núna. Ekki þoka því hér er enginn raki og ekki snjór því hér er of heitt... sandur. Sandurinn fýkur um allt... og inn um óþéttan gluggann minn... sem er ekki kostur.
Jæja, ætla að reyna að ná allaveganna 5 tíma svefni í nótt (þ.a. það sé stígandi í þessu)
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.