'Froggy'

Ég var búinn að ræða þetta með umferðarmenninguna. Ekki nóg með að þeir keyri eins og bavíanar hérna og svíni á allt og alla, þá mætti halda að það væri sérstakt áhugamál að reyna að keyra niður gangandi vegfarendur. Gangandi vegfarendur eiga engan rétt í þessu landi. Það er ekki mikið um gangstéttar nema á einstaka breiðgötum (alls ekki öllum) þ.a. maður er alltaf hálfur út á götu. Ef það eru gangstéttar þá er ekki hægt að labba á þeim fyrir trjám eða einherjum framkvæmdargirðingum og steypuklumpum.
Þegar maður þarf að fara yfir götu hér í Riyadh, sem er ekki óalgengt, þarf maður að gera annað tveggja:
a) Labba óravegalengdir upp með götunni (ekki endilega á gangstétt) og reyna að finna umferðarljós. Þau eru til og það er hægt að hlaupa (hratt) þar yfir. Eins hef ég séð 2 loftgöngubrýr yfir eina af stærstu æðunum hérna. Það er yfirleitt mjög langt á milli þessara staða þ.s. maður getur farið yfir götu á 'löglegan' hátt. Þess vegna notar maður oftast b)
b) Taka Froggy á þetta. Froggy (fyrir þá sem ekki vita) er gamall tölvuleikur sem gengur út á það að koma frosk heilum og höldnum yfir umferðargötu. Þetta er svolítið þannig. Maður stendur og bíður og nýtir svo rétta tækifærið þegar fáir bílar bruna og stekkur af stað. Þá er eins gott að vera snöggur.

Annars er ég spenntur fyrir deginum. Í dag eða seinnipartinn, er stefnan sett á eyðimörkina. Auðvitað er ég staddur í miðri eyðimörk þannig, en ég meina svona 'bara sandur' eyðimörk. Ég er alveg til í að sjá það. Það er Indverji í vinnunni sem bauð mér að koma með sér í bíltúr eftir vinnu í dag (reyndar ætluðum við í gær en hann tafðist í vinnunni). Hann er í vinnunni en ég er í fríi þ.a. ég bíð spenntur eftir símtali. Ég veit ekkert hvert við erum að fara eða hvað við erum að fara að gera en það verður svona 'semi-local' af því að hann er náttúrulega innflytjandi. Hvað gera Indverjar á kvöldin í KSA? Hann ætlaði líka að rúnta aðeins með mig um nágrennið, sem verður tilbreyting frá þeim labbitúrum sem ég er vanur að taka í kringum hótelið.

En - frí í dag og það er ljúft

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband