Kamel-mjólk beint úr spenanum og fleiri heimsborgarastig

Ég komst út í eyðimörkina í gær. Ég var mikið að spá í það hvernig ég kæmist út í alvöru eyðimörk þ.s. ég sæi bara sand og kannski einstaka kameldýr, og spurðist fyrir niðrí vinnu. Auðvitað var þarna einn Indverji sem hefur búið hér í 13 ár, sem vildi ólmur fara með mig.

Hann pikkaði mig upp og við lögðum af stað rétt um 1700. Þegar maður er í miðbæ Riyadh þá er alltof seint að leggja af stað kl 1700 ef maður ætlar í eyðimörkina. Það var komið svarta myrkur þegar hann sagði loksins 'Jæja, þá erum við komnir'. Ég held að hann hafi misskilið þetta eitthvað aðeins. Vissulega var allt svart til hægri og til vinstri, en við vorum rétt búnir að taka bensín þ.a. það var kannski kílómetri í bensínstöðina og svo sá maður greinilega ljós framundan og við vorum stopp á miðri hraðbraut.

Sem betur fór rákumst við á kameldýr og 3já hirðingja. Ég stökk út með myndavélina og fékk leyfi til að taka myndir af dýrunum og þeim sjálfum. Fyrr um daginn kom lítið kamelkríli í heiminn og nú á ég myndir af þessu öllu. Hirðarnir voru líka upp með sér og ánægðir að ég vildi endilega smakka hjá þem kamelmjólk, þ.a. þeir stukku til og mjólkuðu í skál fyrir mig. Merkilega góð og mun léttari en kúamjólk og ekki eins bragðmikil svona beint úr spena. Kom reyndar á óvart. Ég tók líka nokkrar myndir af þeim og sýndi. Það var í fyrsta sinn sem þeir sáu mynd af sjálfum sér. Enginn hafði tekið mynd af þeim áður, hvað þá sýnt þeim hana. Einn af þessum hirðum var gutti á aldur við Spiderman I. Sá hefur aldrei farið í skóla og mun aldrei fara í skóla. Hann verður kamelhirðir þegar hann verður stór.

Þeir voru svo upp með sér að þeir vildu fara að slátra kálfi og grilla og gefa okkur. Ferðafélagi minn afþakkaði það að mér forspurðum, sagði mér það bara þegar við vorum á leiðinni í bílinn aftur. Ég hefði alveg verið til í að bíða í 2 tíma og fá grillaðan kamel... en eftir á að hyggja þá hefði það kannski lagst á samviskuna því þeir vildu endilega bjóða þetta og þar af leiðandi gætu þeir ekki selt kjötið. Þeir geta fengið um 1.000 SAR fyrir kálfinn á markaði sem dugar þeim og fjölskyldum þeirra í marga mánuði. Kamelhirðarnir flakka á milli markaða og hátíða um allt landið (og þetta er stórt land), búa í eyðimörkinni undir berum himni (smella kannski upp stöku tjaldi). Ég fékk að sitja með þeim í smá stund við varðeldinn og njóta þess að vera kamelhirðir.

Félagi minn var líka búinn að lofa mér að rúnta aðeins um og sýna mér borgina í bakaleiðinni. Þegar hann var að keyra í 4ða sinn framhjá sama mollinu ákvað ég bara að biðja hann að skutla mér í bæinn. Honum fannst semsagt merkilegast að keyra hraðbrautina fram og til baka... eitthvað sem ég geri á hverjum degi hérna. En það var þess virði.

Þ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband