2011-04-08
Alls staðar má finna brjálæðinga...
Þrátt fyrir allt regluverkið, eftirlitið, refsingarnar og þar fram eftir götunum, má samt finna brjálæðinga hérna í KSA. Reyndar held ég að flestir séu brjálaðir en ungir drengir eru áberandi mest brjálaðir. Það er töluvert um unglinga á fjórhjólum hérna í miðbænum á kvöldin. Þeir safnast saman á götuhornum og skiptast á að prjóna út göturnar á fullu gasi. Oftast eru þeir tveir saman, þ.s. sá sem situr aftaná, liggur nánast með bakið og hausinn í götunni. Auðvitað eru þeir hjálmlausir og auðvitað eru þeir bara í stuttermabol og gallabuxum. Þeir hljóta að drepa sig nokkrir á ári með þessum bjánagangi í þessari líka traffík.
Það eru svosem ekki bara unglingarnir sem eru eins og fífl í umferðinni eins og ég hef margsagt í þessum bloggum. Bílbelti eru ekki notuð í KSA, ekki fyrir börn og ekki fyrir fullorðna. Reyndar halda þeir oftast á ungabörnunum frammí bara. Þá skiptir ekki máli hvort það er konan eða karlinn sem heldur á barninu. Já vel að merkja, konur keyra að sjálfsögðu ekki hér í KSA, þ.a. það má sjá menn undir stýri með ungabarn í fanginu, ekkert eðlilegra.
Gangandi vegfarandur eiga engan rétt. Það er alveg sama hvort það er grænt eða ekki (reyndar er ekki mikið um virk umferðarljós í Riyadh). Það er líka sama þó þú sért að fara yfir einstefnugötu og ert búinn að kíkja í átt að umferðinni... þú getur alveg eins átt von á því að það komi bíll inn á móti einstefnunni, það er ekkert sjálfsagðara. Og menn hægja ekki á sér.
Annað merkilegt sá ég um daginn þegar við vorum að fara heim eftir vinnu. Á bílaplani fyrir utan vöruhúsið voru menn að æfa sig í því að keyra á 2veim hjólum. Þeir keyrðu hring eftir hring á Land Cruiser, vippuðu svo kvikindinu upp á hliðina og keyrðu langaleiðir á tveim hjólum. Ég hef séð þetta í bíó og ég hef séð af þessu myndir... en þetta var 'læf'. Annað hvort geðveiki eða snilld.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.