Síðasta færslan frá KSA... og sagan af Holam

...í bili a.m.k.

Ég er að klára þessa törn hérna úti á morgun. Aðra nótt flýg ég til LHR og þaðan með hádegisvélinni heim á klakann. Ég á hins vegar bókað flug til LHR aftur annan í páskum og til RUH daginn eftir. Tek rúma viku hérna þá. Geri ekki ráð fyrir að hlutirnir verði mikið breyttir en hver veit nema ég nenni að henda inn 1ni eða 2mur færslum.

Ef þið eigið eftir að koma hingað til Riyadh einhvern tímann á næstu tveimur árum þá þurfið þið að fá símanúmerið hjá Holam, leigubílstjóranum mínum. Hann er algjör snillingur. Ég get ekki eignað mér heiðurinn á að hafa fundið hann því hann hefur verið að keyra samstarfsmenn mína undanfarið eina og hálfa árið. Alltaf sama verð óháð umferð, 50 SAR í vinnuna og 50 SAR úr vinnunni. Við erum yfirleitt um 30 mín í vinnuna en oftast nær klukkutíma á leiðinni heim. Holam þessi er Pakistani sem hefur keyrt leigubíl í Riyadh í tæp 13 ár. Vinnutíminn er frá 04:00 til ca. 20:00, 7 daga vikunnar, 14 - 18 mánuði í senn. Fríið er svo tekið í Pakistan, 6 mánuðir með fjölskyldunni því hann á konu og 3jú ung börn. Hann stefnir á það að vera hér ca. 2vö svona tímabil í viðbót og flytja svo loksins alfarið heim. Það er eins með hann eins og aðra útlendinga sem vinna hérna að þeir eru allir að leita sér að vinnu í öðrum löndum. Það virðist enginn þola þetta land... sem reyndar er ekki svo skrýtið þegar maður fer að pæla í því. Það er ekkert að gera hérna, það er ekki kvikmyndahús eða nokkuð til að gera sér glaðan dag. Sádinn fer bara í mollið og reyndar eru öll stóru mollin með míni tívolíi innanhúss, en það er meira stílað inn á börn (trúið mér, búinn að reyna að fara í rússíbana - kids only). Það er heldur ekki sældarlíf að koma hingað með konu eða fjölskyldu. Konur verða að vera huldar, það má ekki sjást í fötin þeirra og þess vegna eru þær allar í svörtu kjólunum utanyfir fötin. Konur eiga líka að vera með slæðu án tillits til trúarbragða, þó ég hafi séð eina eða tvær án slæðu en það er ekki nauðsynlegt að vera með slæðuna fyrir andlitinu. Það er ekki mikið um að konur vinni, það er helst á sjúkrahúsum en einhverjar vinna í búðum en það eru þá búðir sem eru bara fyrir konur (eins og 3ðja hæðinni í Kingdom Tower mollinu). Það er svo nýtilkomið að þær vinni í bönkum og þá bara í röðinni fyrir konur. Konur mega heldur ekki keyra í KSA. Ég reyndar sé ekki afhverju nokkur ætti að vilja koma hingað nema til að komast í frí með fjölskyldunni án þess að vera með fjölskyldunni og ef þú nennir ekki að gera neitt eða skoða neitt í fríinu þínu, þá er þetta tilvalinn staður - já og ef þú drekkur ekki bjór í 40 - 60 stiga hita (því hitinn fer upp í 60 gráður á C yfir sumartímann.

En aftu að Holam (borið fram Hgholam). Hann var að segja mér að það væru 335 leigubílafyrirtæki í Riyadh. Hvert fyrirtæki rekur frá 2veimur upp í 500 bíla, þ.a. það er haugur af leigubílum í borginni. Maður fer heldur ekki varhluta af því þegar maður röltir hérna um hverfið, þetta er eins og á skólaböllunum í gamladaga þegar stelpurnar létu mann ekki í friði ( :þ ) það er endalaust flautað á mann, leigubílarnir snarhemla um leið og þeir sjá mann og valda enn meira öngþveiti í þegar frekar kaótískri umferðinni. Það skiptir ekki máli þó þú sért að labba á móti umferðinni, þeir reyna að pikka þig upp.

Eitt sem maður tekur strax eftir og finnst skrýtið eru hommatendensarnir í nánast undantekningarlaust öllum Sádí-körlum. Á öllum aldri líka. Ekki það að ég sé ósáttur við homma eða sé haldinn einhverri hommafælni, alls ekki. Það er bara skrýtið að sjá fullorðna karlmenn (ekki bara eitt og eitt par eins og maður gæti séð annars staðar) leiðast. Og þegar ég segi leiðast, þá er það allt frá því að leiðast venjulega yfir í það að halda í einn eða tvo fingur og um daginn sá ég 3já karla á miðjum aldri leiðast yfir götu. Svo leiðast þeir ekki bara... þeir kyssast endalaust. Ég læt þetta ekkert fara í mig en þetta er verulega skrýtið allt saman.

Annað sem ég tók eftir í einni af gönguferðum mínum er þetta með moskurnar. Þær eru hérna út um allt. Í fyrstu tók ég ekkert svo mikið eftir þeim. Það fer yfirleitt lítið fyrir þeim en þegar betur er að gáð þá er 10unda hvert hús (örlítið ýkt) með háum turni og uppí þessum turni eru gjallarhorn og út um þessi gjallarhorn má heyra orð Allah. Bænir eru alltaf á sama tíma í öllum moskum og þá fara menn ekki eftir klukkunni heldur stöðu sólar og mána ef ég skil þetta rétt. En svo kyrja þeir mismunandi söng milli moska þ.a. það er enginn samhljómur í þessu. Þetta er allt í lagi á meðan þú heyrir bara í einni en ef þú ert staddur einhvers staðar með 3jár eða 4rar moskur í kringum þig þá verður þetta ansi ruglingslegt.

Eins og ég segi þá er ég á leiðinni heim á morgun og verð á ferðalagi fram á miðjan dag á miðvikudag. Það verður gott að komast heim í faðm fjölskyldunnar... en ég sendi kannski út nýjan pistil þegar ég logga mig inn í KSA aftur eftir rúmar 2vær vikur.

Þ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband