2011-04-29
Heimsborgarastigin hrönnuðust inn í 42°C +
Þá er frídeginum mínum í þessari ferð að ljúka. Tók þetta svona eins og maður á að taka frídaga þegar börnin eru í gistingu (eða ég ekki heima eins og í þessu tilviki) og svaf út. Reyndar svaf ég næstum af mér morgunmatinn því auðvitað var brúðkaupið til rúmlega 0300 í nótt með tilheyrandi látum og ég átti erfitt með svefn. Reyndar hefði nú kannski ekki mikið gerst þó ég hefði sofið af mér morgunmatinn, það er ekki eins og maður detti í beikon og pulsur hérna í KSA.
Eftir 'brekkfastið' drattaðist ég aðeins til að kíkja í tölvuna, enda bara miður morgun og ekki lá á neinu nema fara í tölvuna og vinna pínu. Í hádeginu hringdi ég svo í Holam sem keyrði mig í 'gamla-bæinn'. Gamli bærinn er semsagt rústir einar í orðsins fyllstu, hús frá því um 1700 eða þar um bil (skv. Holam), eða meira svona virki með nokkrum höllum og minni húsum innanum. Það var nokkuð gaman að sjá þetta og auðvitað var myndavélin með (sjá fléttismettið). Holam keyrði mig þarna fram og til baka en fyrir um ári síðan ákvað Sádinn að endurreisa rústirnar, ekki halda þeim við í því ástandi sem það er og sýnir fornmynjarnar eins og þær eru, heldur endurbyggja allt draslið. Þeir eru semsagt með Pakistanana og Filippseyingana í því núna að steypa þetta upp og ákváðu þess vegna að loka 'borginni' á meðan þ.a. ég komst ekki inn, varð að vera fyrir utan og taka myndir af því sem fyrir varð. Ég hefði verið meira en lítið til í að eyða tíma í að labba þarna um. Byggingarefnið hjá þeim í gamladaga virðist hafa staðið saman af úlfalda-taði, sandi og leir, með einstaka spýtu. Ætli ég hafi ekki verið um 2vo tíma í taxanum sem endaði í 85 SAR (sinnum 30).
Þegar ég kom svo aftur í bæinn ákvað ég að rölta aðeins hérna útfyrir. Ég fór reyndar ekki hratt yfir enda sýndu hitamælar allt að 42,8°C. Eins og áður hefur komið fram í undanförnum pistlum, sýna hitamælar í Riyadh ALLTAF lægri tölu en raunverulegur hiti er. Þetta er staðfest af fjölmörgum sem hér búa og vinna. Ástæðan er aðallega að fá fólk út. Hver heldur þú að nenni að fara út í 50°C eða meira?
Kvöldið var svo bara með hefðbundnu sniði, út að borða. Reyndar bryddaði ég upp á nýjung í kvöld, ekki hvað varðar veitingastað, heldur ákvað ég að taka far með 'lókal-bössnum' (sjá eldri myndir á fléttismettinu). Ég var eitthvað svo dasaður eftir göngu dagsins að ég nennti ekki að labba og almenningssamgöngur frá hótelinu og þangað sem ég var að fara, eru ca 2 SAR í stað 16 SAR í taxa. Það var ótrúlega fyndið að sjá framan í þessi 20 (já 20 og kíkið nú á myndina) verkamannaandlit sem sjálfsagt hafa ekki séð hvítan mann taka strætó, ef þeir hafa séð hvítan mann. Þeim fannst þetta meiriháttar. Ég lenti reyndar aðeins upp á kant við bílstjórann, en sessunautur minn gat greitt úr vitleysunni. Annars var bílstjórinn hress á því og söng mestalla leiðins.
Auðvitað nennti ég svo ekki að labba heim aftur eftir að hafa prófað lókalinn, þ.a. ég tók hann bara til baka. Þá hafa sjálfsagt ekki verið nema 12 - 14 í bílnum.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.