2011-06-07
Mzoli´s bar and grill... í miðju 'tánsjippi'
Ég er um það bil hálfnaður með SAfríku dvölina og mér finnst ég ekki hafa gert mikið annað en að vinna. Planið var að vinna milli 800 og 1600 en þetta er meira milli 800 og 2000 eða 2200, sem er vont þegar maður ætlar að gera margt skemmtilegt. Dagurinn fer semsagt í vinnu og koma við á einhverjum ressanum á leiðinni upp á herbergi til að fara að sofa.
Það var samt frí um helgina - ekki af því að við hefðum ekki getað unnið eða að við þyrftum ekki að vinna, heldur voru verkefnastjórarnir að fara saman í fyllerís-golfferð. Eitthvað sem var bara rætt opinskátt um fyrr í vikunni að yrði að standast, þeir ætluðu í þessa ferð og það væri eins gott að láta allt ganga... sem það gerði. Á meðan þeir fóru í sína ferð, fór ég svo kallaðan Góðravonarhöfðahring. Við (já ég þurfti að taka Indverjann með) keyrðum austur með tanganum inn í þjóðgarðinn og vestur með honum aftur í bæinn. Þetta er töluverður spotti, sérstaklega þegar maður stoppar á mörgum stöðum. Við stoppuðum meðal annars á mörgæsanýlendu. Ég var einhvers staðar búinn að sjá að þær verptu hérna og það var mjög gaman að sjá þetta. Það er varptími hjá þeim núna, egg og ungar út um allt. Samt fannst mér merkilegt að fólk mátti labba þarna um óáreitt. Þegar við vorum að fara sá ég svo skilti þ.s. fólk var vinsamlegast beðið um að halda sig utan girðingar á meðan á varptímanum stendur... það var samt fullt af fólki þarna og engin gæsla.
Þar fyrir utan náði ég myndum af villtum strútum, bavíönum og risa-antilópum (sem ég á eftir að flétta upp á). Indverjinn var frekar stressaður yfir þessu öllu saman, vildi ekki fara of nálægt en ég óð náttúrulega í þau myndafæri sem ég komst.
Sunnudagurinn var líka merkilegur. Við fórum með einum innfæddum í það sem er kallað 'tánsjipp' eða township. 'Tánsjipp' er ekkert annað en fátækrahverfi og gettó. Ríkið byggir upp ódýr hús sem fólk fær fyrir lítið og inná milli byggir það sér svo viðbótar hús eða einhverjir aðrir byggja sér kofa, eða sofa í gámum eða tjöldum eða pappakössum. Nú fyrst fór Indverjinn að skjálfa. Auðvitað vorum við bara með GPS og ekki nokkurt götuheiti eða húsnúmer þ.a. ég vildi fara og spyrja til vegar. Hann var nú ekki á því, vildi ekki skrúfa niður rúðuna einu sinni. Ég þurfti því að stökkva út úr bílnum á ferð til að geta spurt einhvern til vegar (smá ýkjur). Mzoli´s er mjög þekktur staður í Höfðaborg. Upphaflega er þetta slátrari sem fer svo að bjóðast til að grilla fyrir fólkið og 'konseptið' er eins núna, maður velur úr kjötborði það sem maður vill fá og fer með það á grill (inni-kolagrill) og bíður í 30-40 mín og fer svo og sækir matinn. Það er bara hægt að fá kjöt og maíis-stöppu. Drykki er hægt að fá í nálægum húsum hjá nágrönnunum fyrir lítinn pening... samt frekar skuggalegt. Ég hélt satt best að segja að Indverjinn væri að fara yfirum úr stressi. Eftir matinn fórum við upp á eitt fjallið til að sjá yfir borgina. Það var fallegt veður en samt skýjað á 'Teibúlmántein' sem er aðal, þ.a. við slepptum því. Ég fór svo í bæinn og Indverjinn ætlaði að pikka mig upp... sem hann gerði þegar hann loksins rataði niður aftur. Hann er snillingur í að lesa kort eins og þið munið, hann sagði það sjálfur. Hann er enga stund að ná áttum og veit alltaf hvar hann er og í hvaða átt hann á að fara eins og þið munið, hann sagði það sjálfur OG hann var með GPS græjuna. En hann viltist samt og varð bensínlaus og náði ekki að hringja í mig þrátt fyrir að vera með bæði númerin... Hann komst samt á leiðarenda að lokum þ.a ég komst heim.
Ég held samt að dagarnir hans séu svo leiðinlegir að það hálfa væri hellingur. Hann gerir ekki neitt. Það er kannski ekki alveg honum að kenna því SAfríkanarnir eru svolítið í yfirskotinu hérna með aðkeypta aðstoð. En á móti kemur þá er hann heldur ekki að finna sér verkefni. Hann situr því á rassgatinu, ekki nettengdur (það er ein brandarakeppnin hérna að vera ekki nettengdur í vinnunni) og bíður eftir því að einhver biðji hann um eitthvað.
Stefnan er sett á að éta krókódíl og synda með hákörlum um helgina... sjáum hvernig það fer.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.