Litla flísin...

Skvísan mín er með flís í lófanum. Það kemur ekki á óvart þ.s. hún er ótrúleg í því að sanka að sér og skoða alls konar drasl sem verður á vegi hennar innan- en ekki síður utandyra og er ekkert að spá í það hvort hlutirnir séu hættulegir sér eða öðrum. Úr vösum stúlkunnar er ekki óalgengt að draga upp ryðgaða nagla, dúkahnífsblöð og 'flísaðar' spítur. En allaveganna flísin var farin að angra hana verulega og hún kvartaði undan sviða og óþægindum í morgun þegar hún var að hafa sig til fyrir skólann. Hann sjálfur (ég) ætlaði þá að rumpa því af að rífa flísina úr lófa ljónsins. Ljóninu leist nú ekki á þá fyrirætlan og rak upp ógnarvein og þar sem við feðgin erum óstjórnlega þrjósk bæði tvö endaði þetta með því að reynt var við flísina en jafnframt var öskrað og æmt eins og verið væri að fjarlægja handlegginn endanlega. Ég þurfti ekki annað en að horfa á flísina og þá var öskrað, og ef ég kom við lófan þá var öskrað enn hærra... Þetta fór ekki vel í skapið á neinum á heimilinu og ég er ekki vinsælasti pabbinn í bænum... það versta var að flísin hafði greinilega setið einhvern tíma í lófanum og gerð úr mjúku efni og náðist því ekki nema að hluta. Ég geri ekki ráð fyrir að fá að draga restina úr á næstunni. Þetta kennir manni að vera ekkert að eiga við flísar nema í fullu samráði við þann sem á hana eða reyna að komast yfir staðdeyfingarlyf af einhverri sort til að koma í veg fyrir mestu slagsmálin.

Litla flísin varð því að mikilli dramasýningu, þ.s. ég var vondi karlinn en ljónið var hetjan sem gekk helsært frá viðureigninni en sigraði að lokum. Uppskrift að amerískri afþreyingar hasarmynd.

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband