Það er ekkert komið í ljós varðandi ofnæmislostið sem drengurinn fékk á föstudag. Hann var hress alla helgina og prófið sem gert var á mánudaginn leiddi ekkert nýtt í ljós. Hann á að fara til sérfræðings á morgun og vonandi kemur eitthvað út úr því. Auðvitað þarf að taka blóð og gera einhverjar tilraunir sem geta tekið einhvern tíma en vonandi ekki langan því það er ekki gott að hafa ekki óyggjandi sannanir fyrir því sem er að gerast.
Á mánudag fór hann í leikskólann og undir sömu kringumstæðum, úti að leika, fékk hann útbrot og var strax tekinn inn. Sem betur fer var hann hress og lenti ekki í losti eða öndunarörðugleikum. Í gær var mamma hans með honum allan daginn í leikskólanum til að fylgjast með og viti menn, úti að leika og fékk útbrot. Hann var að sjálfsögðu rifinn inn og var hress allan tímann. Eftir leikskóla fór mamma hans með hann út að leika til að kanna hvort þetta gerist annars staðar en á skólalóðinni til að útiloka að það séu einhver efni (kattahland - hann er með venjulegt kattaofnæmi) á lóðinni sem eru að valda þessu. Jú hann steyptist út í útbrotum líka út í garði hjá okkur.
Af þessu drögum við helst þá ályktun að drengurinn sé með ofnæmi fyrir kulda. Fyrst var þetta sett fram í gríni, annað hvort að hann hefði ofnæmi fyrir álverinu búandi í Hafnarfirði eða að hann væri með ofnæmi fyrir kulda búandi á Íslandi. Það er auðveldara að flytja úr Hafnafirði en frá Íslandi... Málið er bara að þetta er ekkert grín. Kuldaofnæmi er til sbr. eftirfarandi klausu úr læknablaðinu (vonandi virkar linkurinn http://www.laeknabladid.is/2002/7/fraedigreinar/nr/192/) 'Kuldaofnæmi getur hæglega valdið dauða ef ekki er farið varlega, það nægir jafnvel að drekka kalda drykki, stinga sér til sunds í kalda laug eða fara út í mikinn kulda.'
Hvað er til ráða? Maður bara spyr sig... hvernig ætli fasteignaverðið sé í Suður Afríku? Við skulum sjá til hvað sérfræðingurinn segir (sem reyndar er einn höfunda greinarinnar sem vitnað er í).
Þ.
Athugasemdir
Ég er svo aldeilis hreina forviða! Hef aldrei heyrt um ofnæmi fyrir kulda. Vona að þið fáið úr þessu skorið innan skamms tíma - óþolandi að vita ekki fyrir víst hvað það er sem hrjáir elsku karlinn.
Berglind
Berglind Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.