2007-05-02
Dagur 7 - heimferð
Heimferð nálgast. Ferðaskrifstofan planaði ferðir út á völl í 2veimur langferðabílum. Slegist var um fyrri rútuna, sem átti að fara á fjölda hótela en vera á undan út á völl. Við hjónin ákváðum hins vegar að taka lífinu með ró og fara með seinni rútunni. Við gerðum því rólegheitarkaffihúsaferð um morguninn og sátum í sólinni eftir að hafa pakkað, gengið frá og skilað af okkur herberginu. Enda kom á daginn að þetta var betri kosturinn. Rútan sem fór fyrr af stað lenti í bölvuðu bagsli með að stoppa á öllum hótelunum og kom langt á eftir okkur á völlinn. Þegar við biðum eftir bílunum hvissaðist út sú saga að verkfall stæði yfir hjá innritunar og hleðslufólki á vellinum. Lágmarksvinna var hjá þessu fólki þennan dag og búið var að aflýsa mörgu fluginu. Fyrir utan þessar áhyggjur þurftum við að hafa áhyggjur af því að áhöfnin væri alveg við það að detta í vaktaálagsfrí. Seinkunin mátti því ekki vera meira en 2veir tímar. Úti á velli hrúguðust inn Íslendingar (sem ekki kunna að fara í röð). Þegar við komum var ekki búið að opna fyrir innritun. Við tókum því aðra meiriháttar ákvörðun sem fólst í því að karlinn tók töskurnar en konan stillti sér upp við skjáinn, tilbúin að hlaupa að innritunarborðinu sem auglýst yrði. Þetta varð til þess að við urðum númer 4 í röðinni. Innritunarfólkið var ekki að flýta sér og skoðaði allt í þaula. Við vorum heppin, því það tók tæpa 4 tíma að innrita allt liðið og þeir síðustu sem komu rétt náðu að rífa í sig samloku áður en kallað var á liðið að stíga um borð. Ég var svo pottþéttur að töskurnar kæmu ekki með því hleðslumaðurinn (eintala) sem hlóð vélina setti eina tösku í einu á færibandið og horfði á hana detta inn í vél áður en hann setti næstu tösku upp á færibandið.
Allaveganna, við komumst heim og ekki nema rúmum klukkutíma eftir áætlun. Ég ætla ekki að fara frekar í ferðina því vélin er ógeðslega þéttsetin og alltof þröng. Fögnuðurinn var gríðarlegur hjá stelpunni við heimkomuna en guttinn var meira svona 'hæ - það er partý og ég er að púsla'.
Ferðin búin og ferðasagan eftir minni vonandi sæmilega rétt.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.