Stólaleiðangurinn mikli - 3ja daga process

Loksins er hægt að fara að skrifa um daglegt líf þegar ferðasagan er að baki. Þetta var farið að liggja svolítið á mér... reyndar er líka búið að vera mikið að gera í vinnunni svo tími og orka var ekki mikil til leggja inn skrif.

Okkur hjónin hefur dreymt um borðstofustóla, við eigum forláta borðstofuborð sem fékkst á 95% afslætti í Öndvegi, en höfum alltaf setið á gömlum jálkum. Núna eru gömlu stólarnir sem við fengum frá mömmu farnir að liðast í sundur svo við ákváðum að fara rúnt. Ég var dreginn í IKEA á laugardaginn og það var í fyrsta sinn sem ég steig fæti inn í þá ágætu verslun eftir að þeir fluttu á nýja staðinn. Þangað ætlaði ég mér aldrei en nú er ég búinn að fara. Rosalega leiðinleg búð. Allaveganna, við fundum stóla og aldrei þessu vant þá vorum við bara nokkuð sátt við valið. Kössunum var staflað í skottið. Seinna um daginn áttum við erindi í Rúmfatalagerinn og sáum þá miklu betri stóla sem voru reyndar 1.000 kr dýrari. Við hefðum ekki verið ánægð með IKEA stólana vitandi af þessum svo það var tekin yfirveguð ákvörðun um það að ég færi í það daginn eftir að skila IKEA sínum ágætu stólum og kría út endurgreiðslu. Ég hef semsagt 2svar farið í IKEA (en bara 1u sinni í gegnum búðina). Það gekk um hádegisbil í gær, sunnudag. Farið var svo af stað í Rúmfatalagerinn. Þegar við stóðum á bílastæðinu þar fyrir framan ákváðum við að útiloka húsgagnaverslunina EGG - sem er vitanlega mikið dýrari en að sama skapi flottari og vandaðri. Þegar þangað kom blasti við okkur skemmtileg sýn, flottir borðstofustólar í líkingu við það sem okkur langaði alltaf í en höfðum ekki efni á, á 55% + afslætti sem þýddi að þeir voru ögn dýrari en IKEA sessurnar en ögn ódýrari en Rúmfatalagers stólarnir. Slegið. Lagerinn lokaður á sunnudögum. Varð því að fara í hádeginu, fá jeppa lánaðann og sækja stólana... sem og ég gerði samviskusamlega. Ég er hins vegar að vinna frameftir svo ég veit ekki hvort ég nái að koma þeim heim fyrir kvöldmat... það verður allaveganna morgunmatur á morgun í nýjum stólum.

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skítt með stólanna, hvernig gengur í átakinu (sjá tólin fyrir jólin) ???

Pétur (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband