2007-05-24
Með hælana og herðablöðin í stólnum...
Mér er mjög illa við að fara til tannlæknis nema ef mér er boðið í mat eða veislur þá er það í lagi, en að fara til að láta krukka í kjaftinum á mér er eitthvað sem ég get ekki vanist.
Í dag var ég í 6mánaðatékki. Ég veit ekki hvort er verra, 6mánaðatékk með hreinsun og slípun eða láta gera við eða rífa endajaxla. Það síðarnefnda felur í sér deyfingu en ekki hreinsunin. Ég er alltaf handónýtur eftir þessar hreinsanir á líkama og sál en þó aðallega á hægra endajaxlsvæðinu. Yfirleitt fæ ég líka strengi í læri og maga því ég er þessi typa sem ligg í stólnum með hælana og herðablöðin pressuð niður á meðan restin af skrokknum er í lausu lofti. Núna get ég ekki greint hvort strengirnir eru eftir leikfimina eða eftir tannlækninn.
Tannlæknirinn minn er annars hinn vænsti maður og konan hans líka. Hann hefur að mér vitandi aðeins einu sinni orðið brjálaður út í mig og það eru mörg ár síðan. Þá náði ég að grípa í hendina á honum á meðan hann var að bora og það er víst ekki ætlast til þess að maður grípi inn í svona aðgerðir með þeim hætti. Hann hefur líka nokkrum sinnum verið pirraður út í mig en það er aðallega vegna þess að ég verð svo stífur í kjaftinum að karlinn þarf að beita öllum kröftum og ráðum til að toga í kinnarnar á mér til að sjá eitthvað uppí mig. Í seinni tíð held ég að við höfum náð að aðlagast hvor öðrum ágætlega. Hann veit að hann þarf að taka á því þegar ég er í stólnum og ég veit að ég verð að sætta mig við það að vera bundinn á höndum og fótum í stólnum.
Ekki er hægt að þræta fyrir árangur vinnunnar því það eru ár og dagar síðan ég var með skemmda tönn. Ekki það að áður en ég kynntist honum hafði ég ekki farið til tannlæknis í 10 ár og ekki man ég eftir að hafa verið með skemmda tönn á þeim tíma heldur...
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.