2006-07-20
Skuggi eða skjól
Ég er að myndast við að setja upp skjólvegg heima. Réttara er að nágranni minn er að setja upp skjólvegg og ég er meira svona að taka hann út... ég hjálpaði nú aðeins til við að steypa stólpana niður og svo þarf ég nú að klæða vegginn mín megin. Nágranninn mældi þetta allt saman út, lét grafa holur í hraunið, stillti stólpunum upp, steypti þá með mér, keypti allt efnið og klæddi sín megin... samt...
Skjólveggurinn skilur að 'pallasvæðin' í görðunum tveimur og er mikið þarfa-þing. Með veggnum fáum við frið fyrir hvorum öðrum og þar að auki mun hann taka einhvern vind af okkur, norðan og norðvestan af mér og sunnan og suðvestan af honum. Gallinn við þessa skjólveggi er hins vegar að maður fær skugga inn í garðinn hjá sér - allaveganna þegar það er einhver sól á lofti. Þetta hefur ekki mikil áhrif okkar megin fyrripart dags og frameftir degi en okkur brá svolítið þegar kvöldsólin hvarf. Við höfðum notið hennar þessi fáu kvöld sem hægt hefur verið að sitja utandyra en í gær áttuðum við okkur á því að líklega verðum við að stækka pallasvæðin okkar lengra út í garðinn til að ná góðri kvöldsól. Málið með kvöldsólina er að hún er svo lágt á lofti að það þarf svo litla fyrirstöðu til að búa til stóra skugga. Hádegissólin situr hærra og gerir brattari og minni skugga.
Spurningin er því hvort skuggi eða skjól sé betra? Auðvitað er ekki alltaf skuggi og auðvitað getur maður alltaf fært sig til í garðinum eftir því hvar sólin er hverju sinni - en svona er þetta, maður er alltaf að fatta eitthvað nýtt í þessu.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.