2007-06-13
Ferðasagan - á línuskautum heim úr vinnunni
Kl. 16:30 reimaði karlinn á sig skautana og lagði af stað út í óvissuna. Þ.s. ég hafði einungis skautað á afmörkuðum svæðum, heima og í kringum vinnuna og niðrí laugardag, óð ég í þeirri villu að allir göngustígar og gangstéttir í Reykjavík og nágrenni, væru rennisléttir. Þvílík vitleysa.
Fyrsti áfangi var að koma sér upp götuna hjá Jóa Fel (sem ég man ekki hvað heitir) og þaðan upp á Langholtsveg og niður Álfheima. Gangstéttirnar þar eru ekkert sérstakar fyrir línuskauta en ég komst síðar að því að þær eru í raun guðdómlegar í samanburði.
Grensásvegur er langur og allur uppí móti. Ég var rétt kominn inná Grensás þegar starfsmaður EJS á merktum bíl, reyndi að keyra mig niður um leið og hann var að senda/lesa SMS í símanum sínum. Ég skoppaði af bílnum og kastaðist á rúðu í fyrirtækinu hans. Ég var á gangstéttinni og hann á leið inn á bílastæði sem eru fyrir aftan hús. Fíflið sagði ekki einu sinni afsakið! Nú hefði verið gaman að búa við réttarkerfi US manna. Allaveganna. Síðari hluti Grensás er erfiður fyrir skautara af mínu kaliberi. Mikið um ósléttar gangstéttar. Ég komst alla leið uppá Bústaðarveg.
Á Bústaðarvegi hafði ég séð fyrir mér að vera spítalamegin við götuna en þar endaði göngustígurinn snögglega svo ég þurfti að taka smá rúnt í leit að göngustíg um Fossvoginn. Á endanum neyddist ég til að snúa við og koma mér aftur upp á Bústaðarveg. Fann svo göngubraut aftur til baka rétt fyrir ofan spítalann. Eitthvað misreiknaði ég hallann og legu göngustígsins því þegar ég kom yfir götuna var ég kominn á svo mikla ferð að ég náði ekki að hægja á mér. Við tók mikill bratti beina leið niður að spítalanum og það eina sem ég gat gert var að reyna að standa í lappirnar og hugsa 'ef ég dett þá er stutt á slysó'. Ekki datt ég þarna.
Áfram hélt ég og nú gerði ég sennilega fyrstu mistökin í leiðarvalinu, í staðinn fyrir að fara lengra niðreftir í Fossvoginn frá spítalanum og detta þar inn á dýrindis göngustíg, ákvað ég að fylgja Bústaðarveginum og fara niður göngustíg sem ég hafði séð við rampinn (þegar maður kemur úr Kópavogi og fer upp á bústaðarveg). Sá stígur er algert ógeð. Hann er allur sprunginn og holóttur og hallar þar að auki mjög mikið. Ekki leið á löngu þar til ég missti algerlega stjórnina. Á ákveðnum tímapunkti sá ég fram á að stórslasa mig og í staðinn fyrir að fara lengra og á meiri ferð, skutlaði ég mér í grasið sem umlykur stiginn. Þarna má segja að ég hafi dottið, sem ekki var á planinu, og það í 4ða sinn á skautaferlinum.
Að göngubrúnni komst ég og yfir hana og þá lá leiðin á fínum stíg niður í Kópavog þar sem ég tók sennilega næstu vitlausu ákvörðun. Í stað þess að fara upp fyrstu götu sem ég fann, hélt ég áfram á stígnum meðfram fjörunni. Stígurinn er reyndar skemmtilegur en eftir fyrstu götuna áttu ekki séns að gera neitt nema skauta stiginn til enda og hann endar niðrá höfninni. Þar komst ég inn á götur og skautaði sem leið lá að hælinu. Aftur komst ég á stiginn þar og áfram alveg út á Arnarnes.
Arnarnes er ekki með stíga svo það er bara upp götu, niður götu og þá ertu kominn í nýja hverfið í Garðabæ. Þar eru þrusugóðir stígar nema hvað, vegna framkvæmda þá ná endar ekki saman. Svo enn og aftur þurfti að finna hjáleiðir og fara gangstéttir.
Álftanesvegurinn var svo næstur. Það var ógeð. Ég gat ekki verið á veginum vegna umferðar og sá litli göngustígur sem meðfram veginum er var fullur af grjóti. Þetta var ekki auðveldur kafli. Eina gatan sem ég svo skautaði var leiðin inn að Hrafnistu og sú gata er hrjúf en alger lúxus við hliðina á Álftanesógeðinu.
Við Hrafnistu tekur svo við göngustígur sem liggur niður í miðbæ Hafnarfjarðar og hann var líka í sundur við blokkarsmíðarnar í höfninni þ.a. ég þurfti enn og aftur að finna hjáleið. Síðan skautaði ég sem leið lá út Strandgötuna, framhjá Suðurbæjarlauginni og upp að Ásvöllum. Ekki voru ævintýrin enn búin því við Ásvelli er verið að moka burt heilu hólunum svo göngustígurinn þar er ónothæfur. Ég endaði því á nýmalbikuðu hlaupabrautinni minni við Bónus og verðandi verslunarhverfið. Þessa leið þekki ég vel og eftirleikurinn auðveldur alla leið heim.
Það var þreyttur karl sem rúllaði inn Fífuvellina eftir 2ja klukkustunda og 20 mínútna skauterí. Lappirnar við það að gefa sig undan þunganum og ekkert nema ákveðnin kom mér í mark, því strax í Kópavogi var ég farinn að finna fyrir sárum verkjum í hælunum sem gat bara þýtt það að húðin var smátt og smátt að fara af.
Í dag er ég sæll, ekki í sokkum og ekki skóm... berfættur í töflunum.
Þ.
Athugasemdir
Rakst á þetta blogg fyrir tilviljun og sá færsluna sem þú skrifaðir varðandi kulda ofnæmið hjá stráknum þínum. Vonandi hafið þið fundið góðan lækni fyrir hann þar sem kulda ofnæmi er ekkert grín eins og þið eflaust vitið núna en sjálf hef ég verið með Kulda ofnæmi ( Cold Anaphylaxis) síðan ég var barn með nokkra ára hléum inn á milli og veit að það er ekki mikil fræðsla um þetta og almennt þekkingarleysi á þessu ofnæmi. En þar sem ég veit ekkert hvernig þetta mál þróaðist hjá ykkur ætla ég að mæla með Unni Steinu Björnsdóttur sem er snillingur hvað þetta varðar. En vonandi gengur bara vel hjá ykkur og strákurinn læri fljótt að lifa með þessu.
Þið meigið endilega senda mér póst ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi þetta.
kv
Sunna (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.