Fluga eða ekki fluga

Sumarfrí - kafli 2.

Eftir að hafa eytt einum og hálfum sólarhring í bænum, brunaði ég norður aftur í faðm fjölskyldunnar. Planið var að eyða helgin í hinni ægifögru sveit sem kennd er við Mývatn.

Samhent átak var gert í að ganga frá bústaðnum á föstudagsmorgun og var störfum lokið, allt klappað og klárt, búið að pakka og skúra og skrúbba, rétt rúmlega 10:00 - sem hlýtur að vera met... allaveganna þá skildu leiðir og við litla fjölskyldan fórum í langan leiktúr í Kjarna og borðuðum úti á túni inn í miðbæ Akureyrar. Loks var lagt af stað austur. Komum við í Torfunesi og þar er alltaf jafngaman að koma. Var einmitt að segja konunni að í barnæsku var alltaf suðað um að stoppað yrði í Torfunesi á leiðinni austur í sveit eða suður til Reykjavíkur. Auðvitað var ekki alltaf stoppað og auðvitað varð maður alltaf jafnfúll. Eftir kaffitár í Kinn, var haldið inn á Húsavík og langamma dregin út í göngutúr. Var hún hin hressasta með heimsóknina eins og við og ánægð með göngutúrinn um bæinn í 20 stiga hita og sól.

Við komum líka við í apótekinu á Húsavík því það átti að kaupa flugnafælukrem til að bera á sílin og konuna. Ég harðneita því að þurfa slíkt enda alinn upp án þess í sveitinni. Fluga hefur víst verið í hámarki núna undanfarið en spurningin var hvort það yrði einhver vargur. Hin flugan truflar mann nú ekki mikið. Sem 'innfæddur' eða uppalinn, þá er nú ekki hægt að segja að það hafi verið fluga og ekki angraði hún okkur á nokkurn hátt í þessari ferð, þó að líkhúsið á bílnum hafi verið ansi fjölflugað.

Um kvöldmat vorum við svo komin upp í sveit. Við ákváðum að við skildum ekki nenna að elda og því var farið út á lífið. Dauðaleit var nú gerð að meðalatösku drengsins, því eins og tryggir lesendur vita þá er drengurinn með bráðaofnæmi fyrir eggjum (laus við kuldaofnæmið 7-9-13). Taskan týnd. Það síðasta sem við mundum var að við vorum með hana inni á Akureyri. Þá er gott að þekkja gott fólk og vinkona okkar hún Elín fann töskuna ósnerta í grasbrekkunni í göngugötunni þ.s. við höfðum borðað í hádeginu. Auðvitað vorum við með auka adrenalínpenna þ.a. ekki var þörf á að bruna eftir töskunni þarna um kvöldið - en gott að hún komst í leitirnar.

Laugardagurinn var svo tekinn í túristann. Nutum þess að fara í Jarðböðin sem er blátt lón eins og hverfislaugin okkar, fórum með nesti í Höfða og gengum stærsta hringinn í Dimmuborgum. Dagurinn endaði svo í grillveislu á veitingastaðnum sem kenndur er við Gamla bæinn úti í þorpi. Það þarf ekki að taka það fram að hitinn var um 18-20 allan daginn og mest sól... og auðvitað nutum við fallegasta sólseturs á landinu síðar um nóttina.

Sunnudagurinn var heimferðardagur. Langafi var heimsóttur í kirkjugarðinn og kirkjan skoðuð. Ég vildi endilega skrifa í gestabókina og þ.s. við vorum greinilega fyrst í kirkjuna þennan dag þurfti ég að rita dagsetningu. Samviskusamlega skrifaði ég 31.06.07 í haus. Huxaði svo ekki mikið meira út í það fyrr en ég var kominn í sundlaugina á Akureyri... það eru ekki 31 dagar í júní. Djö*** rosalegur sérfræðingur get ég verið. Er að spá í að biðja pabba að skutlast þarna uppeftir og rífa blaðsíðuna úr bókinni áður en einhver fattar þetta.

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband