Rosaleg ferðahelgi að baki. Rosalega gott að vera kominn heim. Við erum ekki mikið útilegufólk... við eldri í fjölskyldunni allaveganna.
Fyrst var farið með götunni í Varmaland í Borgarfirði. Yndislegt veður, frábær félagsskapur og ágætis tjaldstæði með þeirri þjónustu sem til þarf (eins og sundlaug). Um kvöldmat voru allir orðnir klárir með tjöldin... eða sko... við með tjald en aðrir með fellihýsi. Búið var að parkera bílunum og mynda skjólvegg um búðirnar... eða sko... við á bíl en aðrir á jeppa. Allir krakkarnir í einni kös í rugbý-i... eða sko við með 2vo krakka en aðrir með 3já eða fleiri... Þetta kvöld gekk allt út á þetta, benda á allt sem gerði okkur öðruvísi en hin. Ég er ekki viss með fellihýsið og krakkafjöldann en alveg til í að ræða þetta með jeppann. Ég á orðið ansi marga bandamenn í götunni hvað það varðar.
Laugardagsmorgun, vöknuðum í rigningu. Vissi að ég átti eftir að pakka tjaldinu og raða í bílinn... sem er ekki gaman þegar allt er blautt. Var því kannski ekki í svaka stuði. Við hentumst samt í sund með öllu liðinu og hentum krökkunum til og frá. Það var ekki óalgengt að heyra karlmenn öskra 'fariði frá krakkar, pabbi er að leika sér!' eða 'krakkar, leikið ykkur í djúpu lauginni svo þið séuð ekki fyrir!' - pabbarnir voru ansi duglegir í sundboltanum. Eftir sund drifum við í því að rífa í okkur nesti og klára að pakka saman. Eiga menn þakkir skyldar fyrir aðstoðina við að pakka tjaldinu, því annars hefðum við ekki komist af stað.
Laugardagseftirmiðdagur fór í að keyra norður á Skaga þar sem okkur var boðið í afmæli. Þar hittum við fyrir fullt af fólki sem við þekktum ekki neitt og einhver skyldmenni. Alltaf gaman að hitta skyldmenni og spjalla. Hins vegar var veðrið ekki uppá marga fiska, 7 stig, norð-austan, súld og þoka. Við vorum því ekkert alltof spennt að slá niður tjaldi, sérstaklega eftir að hafa tekið það niður blautt fyrr um daginn. Kl. 23 fórum við því heim... og þá meina ég heim. Alls 313 km en það tók tæpa 4 klst. Kenni malarveginum á Skaga og almennri þreytu um en heim komumst við. Það var gott að komast heim í rúmið sitt.
Sunnudagurinn fór svo í að ganga frá drasli eftir ferðina og þrífa bílinn (maður verður að sýna smá viðleitni ef maður er að spá í jeppa). Auðvitað þurfti að vera bongólfur hjá liðinu í Borgarfirðinum og þau komu ekki fyrr en seint og um síðarmeir í bæinn. Það hafði verið 'of heitt' og sól allan sunnudaginn og auðvitað mikið fjör (samt vorum við ekki með).
Á næsta ári verður nóg að fara eina ferð í einu - ekki tvær - það er of mikil keyrsla á liðið.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.