2007-08-13
Frábær helgi að baki...
Löng og ströng en frábær helgi að baki. Stelpan var að keppa á Pæjumóti á Sigló. Þvílík snilld.
YR er nýbyrjuð að æfa. Eftir fyrstu æfinguna kom hún heim og sagðist þurfa takkaskó og að hún ætlaði á Pæjumót. Jú við ákváðum að stefna á það án þess að vita hvort hún myndi endast í boltanum. Áhuginn hefur hins vegar ekkert nema vaxið í sumar og nú er hún staðráðin í því að æfa í vetur líka (sem er gott). Auðvitað er búið að græja hana upp og nú á hún allt til alls.
Fyrsti leikur var innbyrðis viðureign Haukar og Haukar B (YR er í Haukum B). Þetta var nú frekar mikil einstefna (í átt að B markinu) en YR átti samt skot í stöng og ég get svarið það ég var búinn að sjá hann inni og kominn á hnén í fagnið en... Lokatölur 4-0 tap.
Annar leikur var við A-lið Þróttara í Reykjavík. Það var alger einstefna og lokatölur 8-0 tap.
Þegar hér var komið við sögu vorum við foreldrarnir í B liðinu búin að átta okkur á stöðunni. Við héldum áfram að hvetja okkar stelpur og öskra okkur hás. Markmiðið var að sem flestir gætu hreinsað frá marki og að flestir myndu hlaupa í rétta átt og að við fengjum sem fæst mörk á okkur. Þriðji leikur dagsins var því verulega spennandi.
Þriðji leikur var við Leikni (ef ég man þetta rétt). Stelpurnar lentu undir snemma leiks en sýndu mikla baráttu og náðu að skora sitt fyrsta mark - og þvílíkur fagnaður (ekki síður hjá foreldrum). YR heldur því fram að leikurinn hafi endað 1-1 en ég held reyndar að hann hafi tapast 2-1 en ég er ekkert að leiðrétta stelpuna.
Eftir leik var farið í 'tjaldið' og afmælissöngurinn sunginn og YR - 7jö ára - bauð upp á köku. Frábær stemning í hópnum.
Fjórði leikur (laugardagur) var við A lið KR sem var feikilega öflugt. Stelpurnar stóðu sig feikilega vel og héldu markinu hreinu langt fram eftir hálfleiknum. YR sýndi oft snilldartakta í marknu og varði mörg þrumuskot (markmenn voru 2veir í B liðinu sem skiptu með sér hálfleikjunum). Lokatölur voru 4-0 tap en frábær árangur á móti svona sterku liði þ.s. tölfræðin var örugglega nálægt því að fá á sig 30 skot á móti 0 skotum á hitt markið.
Fimmti leikur var við A lið Þróttar frá Neskaupsstað. Þær voru ansi grófar þó ég segi sjálfur frá og þetta var fyrsti leikurinn þ.s. ég varð vitni af 'brjáluðum' pabba sem sagði okkur að fara og horfa á eitthvað annað ef við þyldum ekki að horfa upp á tuddaraskapinn í hinu liðinu. Ég náði að halda mig á mottunni. Lokatölur 6-0 tap.
Sjötti leikur var við A lið Stjörnunnar (sem endaði í öðru sæti á mótinu). Ég held að Haukarnir hafi aldrei komist yfir miðju og ég hætti að telja í 8-0. Stelpurnar voru samt hvergi bangnar og sungu hástöfum Ol'e Ol'e eftir leik.
Sjöundi leikur (sunnudagur) var við B lið Þróttara úr Reykjavík. Þetta var gríðarlega spennandi leikur og okkar stelpur náðu að skora annað mark helgarinnar og jöfnuðu 1-1 rétt fyrir leikhlé. Síðari hálfleikur var aðeins erfiðari og niðurstaðan 3-1 tap. Markið samt ákveðinn sigur.
Áttundi leikur var svo aftur við Haukaliðið sem spilað var við fyrsta daginn. Aftur máttum við þola tap en núna var leikurinn jafnari. Okkar lið var búið að taka þvílíkum framförum. Niðurstaðan 3-1 tap... mörkin farin að hrannast inn.
Níundi og síðasti leikurinn var svo við Hauka C. Nú reið á að klára mótið með stæl og viti menn... 4-1 SIGUR. Ánægjan skein úr hverju smetti (líka foreldrum).
Niðurstaðan frábær helgi. 7 flokkur Hauka A lenti í 3 sæti eftir að hafa verið taplausar lentu þær í því að tapa 1-0 fyrir Víkingum A (sem sigraði mótið) og í raun mjög ósanngjarnt því Haukar lágu í sókn allan leikinn. 7 flokkur Hauka í heild fengu svo heiðursverðlaunin 'prúðasta liðið'.
Þ.
Athugasemdir
Þróttur Nes grófar?!?! nei, ég kaupi nú ekki svona fréttaflutning.
Valdís (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.