2007-11-19
UK þessa vikuna...
Ég er staddur í UK þessa vikuna vegna vinnunnar, nánar tiltekið eru skrifstofurnar í Bracknell (ef einhver nennir að fletta því krummaskuði upp) en sjálfur gisti ég í Reading og tek lestina á milli.
Ferðalagið hefur verið fullt af sérkennilegum og fyndnum atvikum, bæði hafa aðrir verið hlægilegir og ég sjálfur.
Þetta byrjaði með því að ég átti pantaðan leigubíl snemma í gærmorgun sem átti að flytja mig út á völl. Af því að ég var að ferðast einn þá ákvað ég að kúra aðeins lengur og vera ekkert að stressa mig á því að mæta allt of snemma til Drulluvíkur. Þegar um 10 mínútur voru komnar framyfir tímasetningu bílsins og bíllinn ekki kominn fór mér ekkert að lítast á blikuna. Hann kom þó að lokum og ég mætti á réttum tíma í flugið.
Bílabrandararnir voru ekki búnir þann daginn. Þegar ég kom út á LHR beið mín bílstjóri, gamall karl, nær fullkomlega tannlaus og hefði þurft gleraugu því hann keyrði uppá annan hvorn kant sem hann komst í tæri við. Hann tilkynnti mér formlega að hann hafði ekki hugmynd um hvert hann væri að fara (nákvæmlega) en að hann gerði fastlega ráð fyrir því að komast á leiðarenda enda búinn að keyra leigubíl í 31 ár og aldrei klikkað og hann ætlaði ekki að byrja á því þennan daginn. Það kom líka í ljós að karlinn var ansi naskur og datt beint á hliðargötuna í Reading þar sem hótelið mitt stendur. Karlinn stóð bílinn líka ansi þétt á mótorveginum jafn blindur og hann virtist vera en náði að halda sér þokkalega á réttum reinum. Einu skiptin sem mér var ekki sama var þegar hann var að tala í símann eða öllu heldur þegar hann var að reyna að sjá hver var að hringja í hann áður en hann svaraði.
Hótelið sem ég er á er lítið og notarlegt, kannski einum of lítið og notarlegt. Ég færði rúmið upp að vegg og núna get ég tekið armbeygjur á gólfinu EF ég set töskuna uppá rúmið. Sturtuálögin halda áfram að elta mig. Reyndar lekur hún ekki (það er vandamálið) en hausinn er ónýtur og festingin fyrir hausinn er laus í veggnum og dettur alltaf ef stillingum er breytt. Gæðin eru því í samræmi við verðið sem ég valdi.
Reading er vinalegur bær... það sem ég hef séð sofar. Mikill og skemmtilegur miðbær iðandi af fólki og morandi af verslunum og restúröntum. Ég ákvað samt að fara til London í gærkvöldi og borða þar. Endaði á Paddington stöðinni og labbaði aðeins þar í kring... ekki það að ég sá ekkert í myrkrinu en samt ákveðinn stemmari... sá þá líka að með því að taka lestina beint í bæinn tekur ferðin innan við 30 mín. sem er gott að vita. Borðaði á indverskum stað (kemur á óvart) og pantaði mér stóran bjór með matnum. Eftir dágóða stund mætti þjónninn aftur í úlpu og með húfu og tvær litlar bjórflöskur... því miður var ekki til stór bjór í súpermarkaðnum. Gaurinn fór þá út bakdyramegin og hljóp út í sjoppu eftir bjórnum mínum... massa þjónusta. Ég borgaði svo bara strimilinn úr sjoppunni - ekkert verið að leggja neitt sérstaklega auka á það.
Í morgun var svo fyrsti vinnudagurinn. Ég mætti snemma á lestarstöðina og keypti miða og um leið spurði ég um plattformið. 4a var það heillin. Ég þangað og upp í lest. Þegar ég var kominn áleiðis uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að Bracknell var ekki á þessum rúnti. Varð að fara úr lestinni, taka aðra til baka (sem var meira eins og sardínudós) og finna réttu lestina... komst á endanum og ekkert alltof seinn... aðeins... ekki mikið.
Annars er það að frétta að heiman að skvísan rak sig harkalega í rútusætið í skólabílnum og bólgnaði öll upp. Ekki nóg með það heldur náði hún að brjóta aðra framtönnina illa, þ.a. höggið hefur verið sæmilegt. Auðvitað sótti konan hana strax og brunaði með hana til tannsa sem endaði á því að laga framtönnina eins og hægt var. Leiðinlegt af því að um fullorðinstönn er að ræða en svona er lífið... öpps and dáns.
Þ.
Athugasemdir
Ekki illa meint gamli... þetta er bara svona
Þórir Steinþórsson, 20.11.2007 kl. 09:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.