Læsingar í baki er leiðinlegur kvilli

Eftir vikudvöl á kaffilausu eyjunum var gott að komast heim í kaffi... og faðm fjölskyldunnar. Laugardagurinn var helgaður börnunum og jólaföndri í skólanum og sunnudagurinn fór í laufabrauðsútskurð og steikingar hjá mömmu með hele famelí.

Ég vaknaði eitthvað hálf-skakkur á sunnudeginum og fann fyrir eymslum í baki. Þegar við vorum svo á leið í útskurðinn fann ég að ég átti í erfiðleikum með að kíkja til hægri og vinstri þegar ég var að keyra (sem er ekki gott). Heima hjá múttu fékk ég svo heiftarlegan sting í bakið og þvílíka verki að ég man ekki eftir öðru eins. Ég gat ekki setið, staðið eða legið og allt var í hnút. Ég klöngraðist um eins og hringjarinn sjálfur og bar mig aumlega. Þar sem þetta er eini dagur ársins þar sem ég fæ jákvæða styrkingu frá öllum kvenverum fjölskyldunnar fyrir listræna hæfileika í útskurði, harkaði ég samt af mér og skar nokkrar kökur. Komst líka að því að rétt samsettur lyfjakokteill (parkódín, íbúfen og voltarín rapid) með nokkrum Cognac - læknar nánast allt...
Fyrir 3em eða 4um árum tók ég svo völdin af ömmu gömlu við steikingarpottinn. Gamla á skilið hvíldina frá slíkri vinnu ef aðrir geta gert það sæmilega. Ég harkaði því af mér (fékk mér einn Cognac í viðbót) og steikti allar kökurnar, 120 kvikindi, auk þess sem kleinur eru iðulega steiktar við sama tækifæri. Tvöföld uppskrift af kleinum takk... sem betur fer tók maðurinn hennar mömmu við af mér og steikti flestar kleinurnar. Ég hefði sennilega ekki verið til frásagnar annars.

Þegar eitthvað bjátar á líkamlega hringi ég alltaf í föðursystur mína. Hún sagði mér að hvíla mig vel og drekka meira Cognac og hitta sig svo á mánudeginum. Ég hef síðan hitt hana reglulega og látið hana hnoða mig, bugta og beygja. Það er ómetanlegt að eiga svona frænkur.

Ástandið á heimilinu hefur verið með versta móti þessa vikuna, því fyrir utan bakveiki mína hafa krakkarnir tekið pestir. Drengurinn verið með hita og hor og slappur eftir því og stelpan með magakveisu og uppköst. Það tók svo steininn úr þegar konan lagðist í magapestina.

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband