2008-01-18
EM
Ég á einhverra hluta erfitt með að hemja mig þegar íslenska landsliðið er að spila. Það er sama hvort um æfingaleiki er að ræða eða leiki á stórmóti. Ég sit einbeittur á sófabríkinni með harpix lykt í nefinu og lifi mig inn í leikina... ég stekk upp í loft, inní teig og út um allt og adrenalínið er í botni. Auðvitað klikka ég ekki á færunum þó að strákarnir geri það stundum, auðvitað veit ég að það á að skjóta uppi á markmenn sem setjast alltaf á rassgatið, auðvitað veit ég hvenær á að láta sig vaða í gegn og hvenær á að gefa á línuna þó að strákarnir sjái það ekki alltaf. Ég á auðvelt með að sjá hvernig þétta megi vörnina og skil stundum ekki afhverju menn eru svona ragir eða afhverju menn eru svona dofnir. Ég veit líka hvenær það er tímabært að taka leikhlé, hverjum er réttast að skipta inná og síðast en ekki síst hverjir eiga að vera í liðinu yfir höfuð.
Vandamálið með mig er að ég spái íslenska liðinu alltaf sigri í öllum leikjum þó að innst inni sé ég skíthræddur og nánast viss um að við töpum flestum leikjum. Þjóðernisremba og stolt. Það er svo gaman þegar hlutirnir ganga vel fyrir sig og að maður hafði rétt fyrir sér út á við með því að spá sigrum. Ég var því búinn að gera eftirfarandi spá:
Ísland - Svíþjóð 34 - 32 (í ljósi þess að hvorugt liðið hafði spilað almennilega vörn undanfarið)
Ísland - Slóvakía 35 - 30 (verðum að vinna þennan leik og erum 5 mörkum betri)
Ísland - Frakkland 27 - 26 (tökum þá á sálfræðinni)
Ef þetta hefði gengið eftir hefðum við farið upp úr riðlinum með 4 stig sem er fáránlegur árangur. Núna geri ég ráð fyrir að við förum upp með 2 stig eins og Frakkar sem vinna Svía og Svíar sem unnu okkur. Draumurinn í dósinni væri samt að við myndum vinna þessa tvo leiki sem eftir er og Slóvakarnir og Frakkarnir myndu vinna Svíana því þá eigum við möguleika á að fara upp úr riðlinum með 4 stig ef Frakkar og Slóvakar fara með okkur upp og Svíarnir verða skildir eftir með sárt Abba-ennið.
En þetta er kannski örlítið fjarstæðukennt... kemur í ljós
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.