2008-02-14
Ómetanlegt að eiga góða að...
Undanfarna daga hef ég verið að gera mér betur og betur grein fyrir því hvað það er gott að eiga góða að.
Þegar hásinin fór hrúguðust allir nærstaddir að mér og vildu allt fyrir mig gera. Hringt var á spítalann, reynt að fá einhver sjúkragögn hjá starfsfólki Sporthússins (það eina sem var til var kælipoki og plástur) og síðast en ekki síst fylgdi vinur minn mér á spítalann eftir að hafa ónáðað konuna sína sjúkraþjálfann og beið með mér fram á nótt, stytti mér stundir, talaði við læknana og skutlaði mér svo heim.
Þegar heim var komið tók konan við og sá til þess að ég fengi sæmilegan svefn og að ég vaknaði í aðgerðina daginn eftir þrátt fyrir að vera sárlasin sjálf.
Tengdafaðir minn heimsótti mig svo á spítalann og stytti mér stundir á meðan ég beið eftir því að fá að vita hvort ég fengi að fara heim samdægurs. Síðar um kvöldið kom hann og sótti mig á spítalann og keyrði mig heim þar sem konan tók á móti mér með bros á vör (hmmm).
Konan hefur síðan séð um allt og alla á heimilinu og stjanað við mig. Ef hún á ekki skilið dekur í laugum eftir þetta allt saman (og það eru bara liðnir 3 dagar og 7 vikur eftir) þá veit ég ekki hvað.
Til viðbótar við þetta kom verðandi svili minn svífandi með PS3 tölvu sem hann vildi endilega lána mér í legunni. Leiðinlegt.
Nágrannar okkar hafa verið okkur ómetanlegir í að fara með strákinn og sækja hann á leikskólann morgna og kvölds. Auk þess sem granninn kláraði að tengja sjónvarpsloftnetið fyrir efri hæðina sem ég var langt kominn með. Kannski ég reyni að fá hann til að parketleggja fyrir mig á meðan ég er óvinnufær í gipsi???
Svo kom yfirmaður minn með skjá og lyklaborð fyrir mig þ.a. ég get sinnt vinnunni betur að heiman en ég veit ekki hvort það var af góðmennskunni einni saman (hehehe). Nú verð ég dreki. Jæja. Þar fyrir utan hafa Hafnfirðingarnir í vinnunni boðist til að taka mig með til og frá vinnu um leið og ég treysti mér til... öðlingar.
Það væsir ekki um mann allaveganna. Búinn að setja upp vinnuaðstöðu (sem ég hefði átt að vera búinn að gera fyrir 8 árum), PS3 og flakkara á neðri hæðinni og PS2 á efri hæðinni, konan sér um allt og alla og ekki síst mig, sér til þess að ég geti verið í rólegheitum og hafi allt til alls. Það eina asnalega í þessu er að ég get ekki gert neitt til að gleðja aðra... verð að muna að reyna að borga fyrir mig síðar.
Öllu þessu fólki vil ég þakka sérstaklega hugulsemina og megi hún ekki dvína næstu 6-8 vikurnar (sumir segja jafnvel 6-9 máunuði). Til viðbótar verð ég að þakka T og L fyrir að kíkja reglulega á síðuna mína og kvitta fyrir sig með óborganlegum hætti og níðingsskap í bland... gæti ekki verið kátari... nema ef hásinin hefði ekki slitnað...
Þ.
Athugasemdir
Hvað er að heyra! Sportið að fara illa með þig, Þórir minn? Maður fær bara verk í hásinina við að lesa þetta. Farðu nú vel með þig og ekkert rugl.
Þórhallur í Michigan (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 02:56
Þórir minn...ég kíki nú af og til á þig hérna líka!!!!
Verði þér og þínum af okkar aðstoð, ekkert nema velkomið að láta batteríið ganga á 25.
Eva granni (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 10:19
Þetta heitir að sýna auðmýkt og þakklæti...
Þ.
Þórir Steinþórsson, 15.2.2008 kl. 12:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.