2008-03-11
1000 bjartar sólir
Las bókina '1000 bjartar sólir' um daginn. Bókin fjallar um líf tveggja kvenna í Kabúl, höfuðborg Afganistan á nokkurra ára tímabili og hvernig þær tengjast fjölskyldu og vinaböndum og mismunandi stríðshrjáðum tímabilum landsins. Megin efni bókarinnar fjallar um samskipti þeirra við karlpeninginn og þau samskipti eru eins og við er að búast hreint út sagt hræðileg. Ég get alveg mælt með því að lesa þessa bók... þó að ég sé lítill bókarýnir.
Í framhaldi af þessu sá ég svo frétt í gær sem hefði kannski ekki snert mig jafn mikið ef ég hefði ekki verið búinn að lesa bókina. Afganskri fjölskyldu hafði verið vísað úr landi í Svíþjóð og bjó við erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum í Kabúl. Fjölskyldufaðirinn öryrki á ekki möguleika á að sjá fjölskyldu sinni farborða í karlaríkinu og bara þessi staðreynd gerir það að verkum að engar líkur eru á að þau eigi eftir að spjara sig. Þau þora ekki út úr íbúðinni því þau eru afkomendur ættbálks sem meirihluti afganskra múslima líta ekki á sem jafnoka sína og því eiga þau á hættu að verða ofsótt. Átakanlegast var svo að hlusta á eldra barnið, 9íu ára gamla stúlku, lýsa því hversu heitt hún saknaði 'heimilis' síns. Hún vildi bara komast aftur 'heim' þar sem hún gat farið í skóla, leikið við vini sína og verið úti að leika að vild. Stúlkan talaði lýtalausa sænsku (svo vel sem ég þekki hana) og af því má ráða að fjölskyldan hafði verið í Svíþjóð í nokkur ár.
Hvað gengur Svíunum til með þessu? Hvað munar um eina 4urra manna fjölskyldu? Maður veit svosem ekki hvað býr að baki en ég vona það að það sé eitthvað meira og mikilvægara...
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.