Ég verð að viðurkenna að þrisvar á ári væri gaman að vera kennari og margir kennarar segja í gríni að það séu þrjár ástæður fyrir því að hafa valið þennan starfsvettvang. Jól, páskar og sumar. Öllu gríni fylgir þó alvara.
Öfundaraugum lít ég til kennaranna í kringum mig þegar þessi frítími nálgast. Þeir eiga þetta svo sannanlega skilið - allaveganna kennararnir sem ég þekki sem leggja sig virkilega fram við vinnu sína og nota mikinn tíma við undirbúning og við að yfirfara próf og verkefni langt frameftir kvöldum. Launin eru bara ekki upp á marga fiska og þeim fer fækkandi eftir því sem fiskverðið hækkar.
Ef ekki væri fyrir þetta frí þá gæti ég ekki skilið fólk sem velur sér þennan starfsvettvang... og þó að þeir fái þetta frí þá á ég erfitt með að skilja fólk sem velur sér að vera kennarar ef það á ekki börn sjálf á leikskóla- eða grunnskólaaldri. Þetta er náttúrulega snilld fyrir barnafólk. Á almennum vinnumarkaði er ekki algengt að geta tekið frí um 2 vikur yfir jól, tæpar 2 vikur um páska og svo 10 vikur yfir sumartímann (almennir frídagar meðteknir). Ef farið væri eftir venjulegum samningum á almennum vinnumarkaði og báðir foreldrar útivinnandi þá duga frídagar ársins ekki fyrir öllu skólafríi krakkanna þó að foreldrar skiptist á að vera heima. Þá yrði ekki neitt sameiginlegt frí fjölskyldunnar. Fjölskylduvænt að búa við þessar aðstæður - veit ekki? Fjölskyldur eru reyndar samrýmdar á Íslandi í flestum tilvikum og flest börn eiga sjálfsagt ömmur og afa... vandamálið er bara að þau þurfa líka að vinna. Þetta hlýtur að vera erfitt fyrir einstæð foreldri og foreldra sem ekki eiga aðstoð vísa frá fjölskyldu, vinum og ættingjum.
Eitt verður þó að hafa í huga varðandi fríin í skólunum, þau eru ekki sveigjanleg. Þú semur ekkert við yfirmennina um að fá langa helgi þegar þér hentar að skjótast helgarferð í bústað eða til útlanda, þú semur ekkert um að fá frí í viku eða tvær frá miðjum ágúst fram í júní til að skjótast á ströndina, í skíðaferð eða Ameríkureisu. Frídagarnir eru fyrirfram ákveðnir fyrir þig.
Um leið og öfunda konuna mína þessa dagana þakka ég auðmjúkur fyrir að hún hefur valið sér þennan starfsvettvang.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.