Það er farið að birta svo skemmtilega. Græn strá sjást á stangli gægjast undan snjóbreiðunni. Krakkar úti að leika á peysunni einni saman. Spiderman vill fara út á stuttbuxunum og konan farin að huga að framkvæmdum utandyra. Ég er meira að huxa um sjálfan mig. Graslykt espar tvennt, annars vegar golfáhugann og hins vegar langar mig alltaf í fótbolta í takkaskóm á grasi þegar fer að vora. Fótboltinn er sennilega úr myndinni í sumar því ég geri ráð fyrir að hlífa sininni en ég geri ráð fyrir og vona innilega að golfið verði nauðsinlegur hluti endurhæfingarinnar.
Eitt sem hefur loðað við mig á vorin er þrá mín að fara að læra eitthvað meira. Mig langar alltaf óstjórnlega að skrá mig í meistaranám einhvers staðar í útlöndum. Fyrir utan að vera alltaf of seinn til að skrá mig í eitthvað, þá finnst mér innst inni ég vera svo bundinn. Ég er bundinn í vinnunni, bundinn steypuhlunknum sem ég ákvað að fjárfesta í, bundinn konunni og vinnunni hennar... ég er samt viss um að krakkarnir myndu spjara sig hvar sem er... Þetta stöðvar mig samt ekki í því að láta mig dreyma og leita að hentugu námi. Hef verið að skoða meistaranám í Logistics - eitthvað sem ég hef áhuga á og kemur mér við vegna vinnunnar - hér og þar... aðallega þá í DK, SWE og GER. Í ár fór ég að fjölga mögulegum námsleiðum og fór að kíkja á MIM (Master in Information Management) eða MIMS (Master in Information Management and Systems). Eftir að hafa lesið mig meira til um það þá á það sennilega betur við það sem ég vinn við en Logistics námsleiðirnar sem í boði eru. Logistics nám í útlöndum (af því að það er ekki til hérna heima) leggur óþarflega mikla áherslu á alþjóðlega 'shipping' logistic og hluti sem koma mér kannski ekki að gagni í mínum þrönga heimi vöruhúsa og innanbæjardreifingar. MIMS námið er hins vegar sniðið að hinum hlutanum af vinnunni, því ef hluti vinnunnar snýst um logistic þá snýst restin um upplýsingar og upplýsingakerfi, gagnagrunna og samþættingu kerfa, þarfagreiningar, ferlahönnun og hönnunarlýsingar á mannamáli og nú upp á síðkastið hef ég verið að færa mig uppá skaftið hvað tæknilegri lýsingar varðar.
MIM eða MIMS er því málið þetta vorið. Spennandi nám í SWE, DK og NL. Upp kom annað vandamál. Af því að ég tel mig vera svo bundinn þá hef ég verið að gæla við það sem kallað er Executive nám eða nám með vinnu fyrir lengra komna. Executive nám í Logistics er í boði (m.a. í CBS) en ég hef enn ekki fundið Executive nám í MIMS. Ef þið sem eruð með ítök í erlendum háskólum eða þekkið eitthvað til, vitið um slíka námsbraut í viðurkenndum háskóla eða rekist á þetta fyrir tilviljun, þá megið þið endilega láta mig vita. Ekki það að ég sé að fara að demba mér í nám, því eins og áður er talið þá er ég svo bundinn og alltaf svo seinn að þessu... gæti verið innlegg fyrir næsta ár... aldrei að vita og aldrei of seint.
Þ.
Athugasemdir
Gamli... nei ætli ég tæki ekki Executive námið frekar hjá CBS... Annars er ég svo óákveðinn að ég enda ábyggilega ólærður eftir allt saman
Þ.
Þórir Steinþórsson, 28.3.2008 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.