Gullfiskarnir hafa ekki fengið það trídment sem þeir sannanlega eiga skilið. Vegna óvæginna árása óþekktra gróðurtegunda á heimkynni þeirra, hafa þeir dúsað í bílskúrnum undanfarnar nokkuð margar vikur. Húsbóndinn á heimilinu ber fyrir sig tilraunastarfsemi til að ná gróðrinum að mestu úr búrinu. Allaveganna, þeir hafa það skítt í orðsins fyllstu merkingu og nú í vikunni dó Rauðhetta. Rauðhetta verður að flokkast sem ótrúlegt gullfiska eintak því það er ekki eðlilegt hvað hún hefur þolað frá því að hún var 3ja ára afmælisgjöf fyrir rúmum 3ur árum. Nú eru bara Depill og Guðrún eftir, bæði mikið nýrri fiskar. Það er best að karlinn fari að þrífa upp búrið og koma fiskunum aftur á þann stall sem þeir eiga á heimilinu.
Vikan fór mikið til í veikindi Þráins. Hann rauk upp í hita og er byrjaður enn og aftur á penselíni. Aumingja karlinn er búinn að dúsa inni alla vikuna og mis hress. Hitavellurnar gera það að verkum að hann liggur heilu klukkustundirnar eins og slitti í sófanum og horfir á 'Stjúart' en þegar hitinn fer niður, æðir hann um húsið í leit að leik... en því fylgir mikill pirringur því það er ekki stjarnfræðilegur möguleiki á að þessi drengur nái að dekka alla útrásarþörfina innandyra. Hann er þó að skána núna og vonandi verður hann kominn á gott skrið í dag. Það eru mikil veikindi í leikskólanum hans og dæmi eru um deildir sem einungis hafa haft um 25% mætingu alla vikuna...
Mesta sorgin var þó fráfall langömmu Margrétar sem kvaddi þennan heim á þriðjudagsmorgun. Blessuð sé minning hennar.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.