2008-04-15
Afmælisveilsuhryna eitt á árinu liðin...
Þá er Spiderman orðinn 4ra ára og búið að halda upp á það í 3já daga. Hann var samt alveg til í það að sleppa 4ra ára og skoppa beint í 5 en eftir fortölur og útskýringar þá sættist hann á 4ra. Þeim liggur á að eldast grísunum... Spiderman er farinn að telja niður í næsta afmæli því þá verður hann 5.
Laugardagurinn var undirlagður af gaurum í götunni. Ákveðið var að blása til búningaveislu þ.a. allir áttu að mæta í búning. Spiderman var að sjálfsögðu Spiderman enda fékk hann forláta vöðvatrölls-spiderman búning í afmælisgjöf frá systur sinni.
Guttarnir röðuðu sér svo inn hver af öðrum. Þeir eyddu reyndar deginum í að leika sér saman, bæði fyrir og eftir afmæli, en sumir voru svo spenntir að þeir bönkuðu uppá á 10 mín. fresti frá 10:30 til 13:00 til að tékka hvort þetta færi nú ekki að byrja eða kanna hvort undirbúningurinn væri nú ekki örugglega í standi hjá settinu...
Í veislunni voru semsagt 4 Spiderman (3 rauðir og 1 svartur), 1 ninja og ein græn beinagrind. Frekar flottir allir saman.
Pulsur á grillinu eru alltaf í afmælum á þessu heimili og það var ekki gerð undantekning. Spiderman kakan sem mamma Spidermans bakaði og pabbi Spidermans skreytti sló í gegn (þetta varð að koma). Eftir átið héldu gaurarnir áfram að leika sér eins og þeir gera á hverjum degi...
Sunnudagurinn fór meira í það að jafna sig á afmælinu og undirbúa afmælisveisluna sem haldin var fyrir fjölskylduna á afmælisdaginn. Ömmur og afar, frændur og frænkur og aðrir velunnarar komu svo á mánudaginn eftir vinnu í frábæra fiskisúpu og kökur. Auðvitað var afgangskremið af Spiderman kökunni nýtt til að búa til Batman köku (já ég er snillingur í þessu).
Það var þreyttur 4ra ára gutti sem sofnaði seint, sæll og glaður með afmælin sín.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.