2006-11-09
Uppáhalds...
Ég á nokkra uppáhaldsþætti í sjónvarpi og langaði að deila þeim með ykkur...
- Hell´s Kitchen - ótrúlegir þættir um fólk sem þrælar vikum saman í eldhúsi í þeirri von að fá að launum stjórnunarstöðu og eignaraðild að óbyggðum veitingastað í Las Vegas. Ég segi það ekki að verðlaunin eru vegleg en svívirðingarnar sem þetta fólk þarf að þola og þrældómurinn sem viðgengst á meðan þættinum stendur er hreint með ólíkindum. Yfirkokkurinn og eigandinn og stjórnandi þáttarins hikar ekki við að ausa yfir þátttakendur úr sinni andlegu öskutunnu í þeim tilgangi að gera fólkið að betri kokkum og stjórnendum. Meiriháttar skemmtun og því miður þá held ég að lokaþátturinn sé á dagskrá Sirkus í kvöld kl 21.
- Broken News - leikmaður sér ekki hvað er leikið og hvað er raunverulegt en hvort heldur sem er, er gert stólpagrín að fréttahaukum samtímans. Reyndar getur stundum verið erftitt að fylgja öllum atriðunum eftir og klippingar eru rosalega hraðar en ég sá þennan þátt í fyrsta sinn í gær og ég lá í gólfinu. Þættirnir eru á miðvikudögum á RUV.
- Little Britain - aftur RUV og aftur miðvikudagur. Rosalega eru þetta klikkaðir menn. Kúka og piss húmorinn upp á sitt besta, mikið er lagt uppúr því að gera grín að og lítið úr minnihlutahópum (samkynhneigðum, klæðskiptingum, akfeitum, öldruðum og innflytjendum) og hárfínn eðalbreskur tónn yfir öllu saman. Endalaust hægt að liggja í gólfinu með þetta á skjánum.
- Örninn - líka á RUV en núna á sunnudögum. Ómissandi hágæða dönsk spenna. Danir eru óneytanlega kúrekar norðursins þegar kemur að gerð spennuþátta og reyndar líka bíómynda... lang-flottastir. Reyndar talar hann ljóta og leiðinlega íslensku en ég fyrirgef honum það því ég fæ spennuna og söguna í staðinn.
- Rejseholdet - líka danskt og nei ekki lengur á dagskrá... var bara hugsað til þessara þátta þegar ég var að skrifa um Örninn... Betri en Örninn
- Sigtið - Skjár1. Er ekki viss hvenær þessi þáttur er á dagskrá en ég dett oft inn á hann þegar ég sörfa á stöðvunum mínum. Snilldar þættir á íslensku fyrir Íslendinga. Hver þekkir ekki einn Frímann?
Man ekki eftir fleirum í bili en endilega bendið mér á einhverja þætti sem ég gæti lagst í gólfið yfir, hvort heldur sem er úr hlátri, spennu eða hræðslu.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.