2006-11-21
Vinnustaðaafmælissúkkulaðikökuhefð
Ég hef í nokkur ár unnið á fámennum vinnustað þ.s. menn voru í djúpum ís ef þeir gleymdu að koma með köku á afmælisdaginn sinn í vinnuna. Ef það gleymdist eða viðkomandi var í fríi eða fjarverandi umræddan dag, var hann lagður í einelti þar til hann gafst upp og drattaðist með kökuna í vinnuna. Dæmi voru um að menn hafi látið sig hafa það að vera eineltir í allt uppundir hálft ár áður en þeir lutu í gras.
Nú kveður við annan tón. Nú vinn ég á fjölmennum vinnustað. Núna er sameiginlegt afmæliskaffi allra sem eiga afmæli í mánuðinum... og þá eru yfirleitt rúnstykki EKKI kökur. Þetta er forkastanlegt. Auðvitað eiga menn að koma með kökur. Ég er meira að segja svo harður að ég vil helst ekkert annað en súkkulaðibombur eða Tiramisu... ekki gulrótarkökur eða eitthvað þaðanaf hollara.
Það gerðist samt í dag. Nafni minn og nágranni í vinnunni mætti með köku. Snillingurinn sá-arna. Á hann þakkir skilið fyrir framlag sitt. Ekki nóg með það að bjóða samstarfsmönnum sínum í kökur, bauð hann okkur hinum líka... já hann vinnur hjá fyrirtækinu sem á fyrirtækið sem ég vinn hjá 100%.
Ég hvet ykkur öll að mæta með kökur á afmælisdaginn ykkar í vinnuna. Þið gleðjið samstarfsfólk ykkar meira með þessu en ykkur gæti órað fyrir og allt í einu eru þið komin inn í alls konar vinsælar brandarapóstgrúppur sem þið hélduð að væru bara orðrómur. Kannski býðst einhver til að sækja fyrir ykkur kaffi stöku sinnum... hver veit...
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.