Sumarfríið búið... í bili

Einu sinni enn er sumarfríið búið. Ég væri alveg til í að vera í 4ra mánaða sumarfríi, 1ns og hálfs mánaðar jólafríi, mánuð í páskafríi og haust og vorfríi þess á milli... ég sé það núna.

Annars var þetta frí bara snilld.

Eftir rólyndis par daga heima fórum við famelían til Tenerife við Afríkustrendur. Flugið þangað suðreftir tekur um 6 tíma í niðursuðudós og dósin auðvitað smekk-full af sólarþyrstum löndum mínum. Fólk er misjafnt og fólkið fyrir framan okkur í þessari ferð var mjög misjafnt. Ár og dagar síðan ég hef lent í öðru eins en allaveganna við komumst á leiðarenda þreytt og sæl eftir ferðalagið. Það örlaði á smá hita og svita hjá karlinum þegar hann burðaðist með níþungar ferðatöskurnar upp á 4ðu hæð í lyftulausri álmunni en herbergið var í fínu standi á 2veim hæðum með 2veim svölum og útsýni yfir garðinn.
Litla fjölskyldan var ekki lengi út í sólina morguninn eftir og reyndar vorum við örugglega oftast með þeim fyrstu út hvern einasta dag og krakkarnir yfirleitt fyrstir í laugina. Hitinn góður fyrstu dagana og sól allan tímann. Hitinn fór þó yfir 40 gráður við sundlaugina í sólinni síðustu dagana sem jaðrar við að vera of heitt þó það sé gola og hægt að kæla sig í laug. Ég kvarta samt ekkert yfir því, vildi bara segja ykkur frá því.
Við gömlu höfðum gert ráð fyrir því að Spiderman myndi vera eins og þeytispjald um stóran garðinn og kviðum því pínulítið að þurfa að elta hann uppi í tíma og ótíma. Þessar áhyggjur reyndust óþarfar því drengurinn var eins og hugur manns, fór ekki lengra en reglur sögðu til um, lét okkur vita ef hann vildi bregða sér lengra frá sólbekkjunum en augu okkar náðu og þar fram eftir götunum. Á öðrum degi voru keyptar snorkl-græjur handa liðinu og eftir það sást bara í græna skýluna og appelsínugulu armkútana og fjólubláu öndunarpípuna. Drengurinn tapaði sér í snorkli.
Nýlega var opnaður vatnsleikjagarður fyrir börnin í hótelgarðinum og það var ekki lítið vinsælt að fara í hann. 6 rennibrautir, brú, klifurgrindur og alls konar afþreying fyrir börnin. Pabbar máttu ekki fara í rennibrautirnar. Krakkarnir gátu verið endalaust í garðinum.
Af því að pabbar máttu ekki fara í rennibrautirnar á hótelinu varð að heimsækja vatnsrennibrautagarð af dýrari gerðinni. Reyndar er þetta allt voðalega svipað en engu að síður rosalega gaman í smá stund. Börnin töpuðu sér alveg og Spiderman rétt slapp upp fyrir hæðartakmarkanir hættulegustu brautanna... hann fór því í allar brautirnar þó svo að móðurinni hafi ekki alltaf litist á blikuna (þess má þó geta að móðirin tapaði sér líka í æsingnum). Eftirminnilegast úr þessum garði er þó líklega höfrungasýningin sem við fórum á.
Til viðbótar við vatnsskemmtanir fórum við í 2vo dýragarða. Þennan venjulega, stóra sem tekur allan daginn og er með alls konar dýr. Garðurinn sjálfur var rosalega fallegur og svo duttum við inn á tvær sýningar. Skvísan var meira að segja kölluð upp á svið í þeirri fyrri (seinni sýningin var meira hrægammar og stærri ránfuglar þ.a. fólk var ekki kallað upp á svið heldur beinlínis skipað að sitja allan tímann). Skvísan skottaðist á sviðið og skildi náttúrulega lítið í ensku og enn minna í spænsku en gerði sér þó grein fyrir því að verið var að byggja upp spennu fyrir því að einhver risa fugl væri á leiðinni inn á sviðið. Ég verð að játa það að þar sem ég stóð með myndavélina var ég kominn með hnút í magann því ég var ekki viss hvernig Skvísan tæki því að fá hrægamm með 2ja metra vænghaf á axlirnar. Þetta var þá bara einhver hrekkur og lítill fugl kom og settist á hausinn á henni. Þetta var einn af hápunktum ferðarinnar... taka þátt í sýningu.
Hinn garðurinn sem við fórum í var óvenjulegur að því leiti að mest áhersla er lögð á apa og gestirnir geta gengið inn í búrin til þeirra (flestra) og gefið þeim að borða. Krökkunum fannst þetta æðislegt... og reyndar pabbanum líka. Við vorum fyrst inn í garðinn og það var lítil traffík. Aparnir voru því vitlausir í nestið sem við höfðum handa þeim. Við gáfum litlum hr. Níelsum og Lemúrum vínber og gulrætur á meðan þeir snuðuðu í kringum okkur. Innar í garðinum var svo hægt að gefa stærri öpum og þar voru simpansarnir skemmtilegastir. Einn þeirra frekastur sem frussaði á hina apana og okkur. Á leiðinni út þegar við vorum eiginlega alveg búin með nestið lentum við í áköfustu öpunum, aftur hr. Níels og Lemúrar. Þeir gerðu sér lítið fyrir og stukku á okkur, klíndu banana í hausinn á mér og pissuðu á bakið á mér og einn reyndi að skríða ofan í handtöskuna til að komast í blautþurrkur sem voru í pokanum. Krakkarnir veltust um af hlátri þegar pabbinn reyndi að forða gersemunum. Við sáum líka eðlu með niðurgang sem var frekar fyndið (af því að við lentum ekki undir bununni).

Sem sagt - frábært frí - æðislegur staður - meiriháttar krakkar - ekkert golf (en sísonið er ekki búið)

Þ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll vertu.

Gaman að fríið gekk svona vel hjá ykkur. Bið að heilsa.

Bilda.

Brynhildur (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband