2008-09-23
Mundu að þvo buxurnar þínar...
Ég er nú ekki þekktur fyrir að versla mér föt á hverjum degi og lendi stundum í því að mig sárvantar eitthvað. Venjulega eru það gallabuxur sem mig vantar... þær vilja slitna á versta stað og eina skýringin er sú að ég hlýt að vera með pungsíðari mönnum. Þegar kemur að því að ég þarf að endurnýja þá labba ég alltaf sama rúntinn. Vandamálið er bara að ég er bæði nýskur á að eyða peningum í föt á sjálfan mig og svo vil ég heldur ekki kaupa skítug föt eða götótt. Í nokkurn tíma hefur maður nefnilega bara getað fengið ógeðslega dýrar gallabuxur (mér finnst allt dýrt sem kostar meira en ISK 10.000) eða gatslitið og skítugt.
Þegar ég átti afmæli í sumar (já takk fyrir að muna eftir því) þá fékk ég gefins forláta Levi's gallabuxur, orginal, dökk-bláar, beinar, hreinar og án gata (semsagt aungvir 'díteilar') rétt eins og ég vil helst hafa slíkar flíkur. Ég hafði náttúrulega gefið upp mál því seglið var keypt í US þar sem ódýrast er að versla (jafnvel enn þrátt fyrir hrun krónunnar - efni í annan pistil). Buxurnar hefðu því átt að passa... en... eitthvað hef ég styst í annan endann eða þeir hafa lengt í tommunni þar westra. Buxurnar pokuðu á mér og náðu vel niðurfyrir iljar. Ég skildi ekkert í þessu.
Jæja allaveganna... fyrstu viðbrögð voru að reyna að fá buxunum skipt fyrir annað númer. En þar sem ég er svo gamaldags greinilega og hallærislegur þá sáu verslanir á höfuðborgarsvæðinu sér ekki fært að taka við buxunum. Sniðið sennilega ekki verið til á Íslandi síðan 1992. Það varð því ekkert úr því að mér tækist að koma þeim í verð.
Næsta skref var bara að fara og láta stytta buxurnar enda var ég ánægður með þær að öðru leiti. Það gekk nú aldeilis greiðlega fyrir sig og innan dagsins var ég kominn með í hendurnar nothæfar buxur.
Rosalega var ég kátur...
Í buxunum gekk ég daginn út og inn... en það kom að því að ég þurfti að skella þeim í þvottavélina. Ég hefði betur gert það áður en ég sendi buxurnar í styttingu því þegar ég ætlaði í þær í morgun kom í ljós að sennilega hafði ég ekki styst og enn ólíklegra var að menn hefðu breytt tommunni. Þarna stóð ég úti á miðju gólfi í buxum sem náðu niður á miðja kálfa.
Héðan í frá þarf maður að spyrja hvort buxur styttist í þvotti og þó að svarið sé nei þá er líklega best að maður skelli þeim einn hring í vélina áður en maður lætur klippa neðan af þeim.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.