2008-10-28
Leikhús(er)lífið
Ég var búinn að gleyma hvað það er gaman að fara í leikhús. Sú var tíð að við hjónin vorum áskrifendur af sætum í einu leikhúsanna og sáum allt (í því leikhúsi). Síðan eru liðin ár og fleiri leikhús stigið fram í dagsljósið þ.a. ég er ekkert viss um að ég myndi endilega vilja eiga svona áskrift. Vandamálið við að eiga ekki áskrift er að þá gefur maður sér ekki tíma til að fara í leikhús og það er gaman að fara í leikhús.
Ég segi þetta alltaf þegar ég er nýbúinn að fara í leikhús.
Í 'Ástandinu' er ekki sjálfgefið að fara í leikhús en við nýttum okkur boðsmiða SPRON og völdum létta stykkið 'Fólkið í blokkinni'. Þungi möguleikinn hefði endanlega skrúfað fyrir skapið á mér held ég.
Fólkið í blokkinni er hin skemmtilegasta sýning um ekki mikið. Leikurunum tókst bara að gera persónurnar skemmtilegar, óþolandi og pínlega hlægilegar. Segir kannski meira um leikarana en handritið. En í stuttu máli fjallaði þetta um misgáfaða einstaklinga og mislukkaðar fjölskyldur sem búa saman í blokk í Breiðholti (ég gat ekki skilið það öðruvísi, hvar eiga Hólahólar annars að vera). Inn í þetta fléttast ein mislukkaðasta hljómsveit sem sögur fara af og samanstendur af íbúum blokkarinnar og auðvitað eru tvö ástarævintýri sem eru frekar fyrirsjáanleg allan tímann.
Uppúr stendur samt túlkun Hallgríms Ólafssonar (leiðréttið mig ef ég fer leikaravillt) á einhverfa stráknum sem er miðdepillinn í sýningunni að mínu mati... Eftir áralanga reynslu mína af því að vinna með fötluðum rifjuðust upp margir snillingar sem ég hef fengið að hitta í gegnum tíðina.
Útkoman samt hin besta skemmtan.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.