Munurinn á sílunum...

Ég er svoooo ríkur!!
Ég á 2vö yndisleg börn, stelpu og strák.

Fyrirfram hefði maður alveg getað ímyndað sér að nokkur munur væri á hegðun og öðru atferli sílanna með því að byggja á kynferði.
Stelpan ætti þannig að vera snyrtipinni, skipta sér af vali á fötum og öðru dóti, vera dugleg í skólanum, leika með dúkkur, uppáhaldslitur = bleikur, osfrv.
Strákurinn ætti þannig að vera drullugur upp fyrir haus og standa á sama, vera alveg sama hvort hann sé yfirleitt í fötum, vera til vandræða í skólanum, leika með bíla og byssur, uppáhaldslitur = blár eða svartur, osfrv.

Þetta er ekki alveg svona einfalt þó að margt standist prýðilega. Undanfarið hef ég aðeins verið að bera þetta saman.
Stelpan er vissulega dugleg í skólanum en það er strákurinn líka þó hann sé nú bara í leikskóla (ef frá er talið þegar hann henti steini í hausinn á besta vini sínum um daginn þ.a. það blæddi ógurlega).
Strákurinn er hins vega snyrtipinninn, hefur sterkar skoðanir á því í hvaða fötum hann vill vera í en stelpan fer yfirleitt bara í þau föt sem til eru höfð fyrir hana. Hann er líka þannig að það má ekkert sullast við matarborðið án þess að það sé þurrkað upp um leið á meðan stelpan tekur ekki eftir því að hún er með spaghettí hangandi í eyranu. Það tók samt steininn úr í fyrrinótt þegar hann vaknaði upp með andfælum og neitaði að sofa með 'Herramannasængina'... við urðum að skipta á rúminu kl 03:24.
Stelpan hefur aldrei haft áhuga á dúkkum þó hún eigi fulla kassa af þeim, hún leikur hins vegar mikið með bangsa og önnur tuskudýr. Strákurinn hefur jú áhuga á byssum og bílum, þá helst bílum sem hann getur klesst en áhyggjuefnið er perlið. Ekki það að ég sé á móti því að hann perli því það er góð æfing fínhreyfinga og samhæfir huga og hönd, en afhverju þarf hann að perla með bleiku? Það er allt bleikt sem hann gerir. Hvar er svart og blátt?
Stelpan er dundari en strákurinn ærslabelgur (sem er eftir bókinni).
Stelpan er ekki mjög hrifin af bleikum. Gulur og reyndar rauður eru í uppáhaldi. Ég veit ekki alveg hvar ég hef strákinn. Eins og fyrr segir vill hann perla bleikt...
Það hefur hingað til verið lítið mál að segja stelpunni til, hún er fljót að læra og hún veit muninn á réttu og röngu. Eftirminnilegt atvik átti sér stað þegar hún var um 3ja ára, þá krotaði hún með litum í bók. Eftir örlitlar skammir og útskýringar um að maður litar í litabækur, hefur hún ekki sett eitt strik í allar þær bækur sem hún hefur átt um ævina. Strákurinn á það til að krota út um allt og þá sérstaklega á sjálfan sig. Það er alveg sama hvaða aðferðum er beitt, útskýringum, skömmum eða yfirlýstum vonbrigðum, hann heldur áfram um leið og maður hefur snúið sér við.
Ég man heldur ekki til þess að það hafi verið vandamál að kenna stelpunni að borða bara hreinan snjó. Ég er að reyna að kenna stráknum að láta allaveganna gula snjóinn vera. Honum er alveg sama hvort snjórinn sem hann borðar er af dekkjum heimilisbílsins eða úr sandkassanum, bara að það sé snjór.

Svona mætti lengi telja...
Eitt er samt merkilegt að börn haga sér nær undantekningalaust eins og englar í návist annarra hvort sem um vini eða ættingja er að ræða eða ókunnugra. Það trúir manni því enginn þegar maður segir lygilegar ævintýrasögur af börnunum.

Þ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband