2008-11-06
Ég ætlaði ekki að vera með 'kreppublogg'
Það var aldrei ætlunin að vera með kreppublogg enda hundleiðinlegt að vera með þessa kreppu á heilanum. Staðan er samt sú að á meðan maður á enn einhvern aur þá eltist maður við ýmiskonar tilboð. Það eru nefnilega allar líkur á því að allt muni hækka í verði næstu misseri og alveg eins gott að kaupa það núna sem maður veit að maður þarf að nota á næstunni... ef maður þarf ekki að taka það á 30% yfirdrætti... þá er það ekki endilega hagstætt.
Dæmi um kreppuna hjá mér:
Spæderman vill hafa ljós í herberginu sínu á nóttunni sem er ekki gott þegar maður þarf að spara rafmagn, en hvað um það, geðheilsa hans er mér mikilvægari en auka 100 kr í rafmagn. Ég setti upp jólaseríu hjá honum í desember 2007 sem hann vildi endilega hafa áfram og gengdi hún hlutverki næturlýsingar þar til um daginn að hún gaf sig. Í nokkrar nætur hefur því verið kveikt á lampa í herberginu sem gefur allt of mikla birtu frá sér. Ég ákvað því að endurnýja jólaseríuna og fór í Húsasmiðjuna því þeir hafa auglýst jólaseríur á sama verðinu og í fyrra. Ég hef samt ekkert fyrir mér í þeim efnum, þ.e. hvort verðið sé raunverulega sambærilegt og í fyrra, hvort þetta sé sama krónutalan eða hvort þetta sé sama verðið á sambærilegu verðlagi miðað við verðbólgu eða hvort þeir séu bara að ljúga til að auka viðskiptin... en allaveganna ég keypti handa honum seríu.
Við það að fara og kaupa seríu í herbergið kveiknaði hjá mér jólaþrá. Ég er nefnilega innst inni alger jólasveinn í öllum skilningi þess orðs. Ég elska jólin, hef alltaf gert og mun alltaf gera. Ég ákvað því að fara heim og rífa fram seríurnar og tékka hvað væri í lagi og hvað vantaði. Ég er venjulega með um 14-16 seríur í gangi í desember fyrir utan þær sem fara á tréið og ég hef þar að auki ekki hent mörgum seríum í gegnum tíðina þ.a. safnið er orðið ansi veglegt, sérstaklega í ljósi þess að ég hef alltaf fundið nýja staði í húsinu til að hengja upp nýjar seríur sem ég hef þurft að kaupa, plús það að ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé ekki þess virði að reyna að gera við seríur sem ekki kveiknar á heldur sé það miklu betra að kaupa nýjar. Það er svo óheyrilega leiðinlegt að reyna að finna út hvaða pera er farin fyrir utan það hversu dýrar perurnar eru. Ef menn nenna að eltast við ónýtar perur á annað borð þá getur það borgað sig að kaupa litla seríu í sama stíl, frekar en að kaupa sett af perum.
Vegna þess að það er kreppa og ég hafði tíma þá datt mér í hug að fara í viðgerðir í gær. Eitthvað sem ég hef ekki gert hingað til (nema ein og ein pera sem augljóslega er ónýt). Ég setti hverja seríuna í samband af annarri og mér til furðu og gleði voru flestar þeirra heilar... en það voru nokkrar sem kveiknuðu til hálfs (eða minna) og nokkrar sem voru alveg dauðar. Þá byrjaði fjörið. Ég byrjaði að reyna að laga... Eftir um klukkustund var ég kominn með heila seríu... en ég var ekki lengur jafn spenntur fyrir því að laga fleiri seríur og tók yfirvegaða ákvörðun um að henda restinni.
Ég skrifaði því niður á blað hvað vantaði til viðbótar til að lýsa upp heimilið í desember og ætla í Húsasmiðjuna í dag.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.