Vil þakka kærlega fyrir mig og mína...

Eins og ástandið er í dag gerði ég nú ekki ráð fyrir að fá eftirfarandi framgengt.

Þannig er mál með vexti að vel fyrir sumarið pöntuðum við skáp í forstofuna frá fyrirtæki hér í bænum sem kennir sig við Ormssyni. Við erum nú enn í því að lappa upp á kofann sem við byggðum og höfum verslað töluvert við þetta fyrirtæki enda með einvalaúrval vörumerkja í innréttingum og heimilistækjum.
Við höfum nú ekki alltaf verið jafnánægð með þjónustuna í gegnum tíðina en tiltölulega ánægð með vöruna. Þannig er hægt að segja frá því að eldhúsinnréttingin okkar kom á 6 mánuðum, vantaði mikið í hana, vitlaust afgreitt og svo koll af kolli, en þar sem við erum ánægð með gæðin og útlitið og erum búin að heyra verri sögur af öðrum eldhúsinnréttingasölum þá fannst okkur við bara í fínum málum.
Aftur að skápnum. Við pöntuðum skáp sem samanstendur af rennihurðum frá lofti niður í gólf og hillum og öðru involsi þar frístandandi fyrir innan. Vegna skekkju í veggjunum (í nýja húsinu - já) þá var okkur ráðlagt af 'sérfræðingum' fyrirtækisins að hafa með í kaupunum fleka all ógurlega til að smella við enda hurðanna.
Skápurinn var svo allt sumarið að ferðast til landsins og 'bara' viðskiptafræðingurinn ég klambraði svo skápnum loksins upp. Ég var þó ekki allhress með frágangsflekana því tveir þeirra voru með kantlímingu en tveir ekki. Ég þurfti því að biðja um kantlímingu. Það tók uppundir 2vær vikur að fá hana til landsins og auðvitað var pöntuð hvít líming á hnotuna mína. Ég þurfti því að panta aftur. Nú kom 'réttari' litur en meira út í tekk en hnotu þannig að greinilegur munur var á.
Eftir frekari kvartanir ákvað fyrirtækið að senda til mín smið einn mikinn og hugaðan. Hann fékk svo hland fyrir hjartað yfir klúðrinu, ekki það að viðskiptafræðingurinn hafi klúðrað uppsetningunni heldur hvernig í ósköpunum einhver hefði getað ráðlagt okkur þetta og selt. Þessi sami smiður tók það að sér að tala við sína yfirmenn því þetta gengi ekki. Þetta var snemmhausts.
Síðan höfum við verið að bíða og ýta á eftir viðbrögðum frá Ormssyninum. Síðast ýttum við við þeim rétt eftir að bankarnir féllu og gjaldeyrisskömmtun stóð sem hæst. Hvað haldið þið að hafi gerst í gær? Jú - smiðurinn hugprúði bankaði uppá með nýja skápahurð og rennur í stíl, reif niður gamla skápinn, setti þann nýja upp, fékk sér kaffi og kvaddi. Allt eins og blómstrið eina og allir kátir og allt þetta umstang kostaði okkur ekki krónu.
Kann ég Ormssyni þakkir fyrir þjónustuna. Ég bjóst nefnilega alveg við því að þurfa að lemja hnefum í borð og æsa mig í búðinni yfir þessu öllu saman og að þeir myndu harðneita að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir mig nema á endurreiknuðu gengi krónunnar og hækkandi verði iðnaðarmannsins. En ég slapp við það.

Þ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Magnað með skápinn að lokum:-) Verður þú ekki góður formaður foreldrafélags? Þið mætið a.m.k. á fundi.

Bilda.

Brynhildur (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband