2008-12-01
Tengdó var 6tug á föstudaginn...
Tengdamóðir mín skreið í 6tugt á föstudaginn var. Við tengdasynirnir vorum búnir að rífast yfir því hvor okkar ætti að halda ræðu þegar hún sjálf dæmdi númer 2vö til að gera það með því að biðja mig um að stýra veislunni. Ég gat ekki sagt nei en mikið djöv*** get ég orðið stressaður á svona löguðu, sef ekki fyrir áhyggjum og var alla nóttina á undan að undirbúa þetta. Gamall draumur rættist þó. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef verið beðinn að stýra samkomu og ég gat stolið hugmynd vinar míns sem hann stal örugglega af einhverjum öðrum, og verið skálavörður í stað veislustjóra (sem er of líkt bankastjóra).
Eftirfarandi er ræðan mín (þurfti auðvitað að segja nokkur orð) - til hamingju tengdó!
28.11.2008
Tengdó 60 ára.
Kæru samgestir skál.
Það að misnota ekki aðstöðu sína er að misnota aðstöðu sína, þ.a. ég ætla að troða mér hérna inn í ræðuröðina og fá að tala aðeins til afmælisbarnsins. Ég veit að ég er nýbúinn að segja að ég ætli ekki að tala mikið en ég verð að fá að segja nokkur orð.
Elsku tengdó. Ef mér skjátlast ekki þá eru liðin um 16 ár frá því við kynntumst fyrst. Það var reyndar svo stutt tímabil að ég man ekki eftir neinu skemmtilegu sem kom uppá þá... mér fannst bara merkilegt að ég er búinn að þekkja þig næstum því helminginn af minni löngu ævi.Samband okkar hefur nú samt verið nokkuð stöðugt undanfarin 12 ár eða svo og ég man ekki til þess að allir tengdamömmu-brandararnir eigi við í okkar sambandi, kannski nokkrir en ekki allir.Þegar ég lít til baka kemur fyrst upp í huga minn mynd af sjálfum mér; ungur, spengilegur, glæsilega vaxinn maður í topp-formi... 74 kg og afreksmaður í íþróttum. Fyrir rétt um 12 árum flutti þessi ungi og spengilegi maður inn á tilvonandi tengdaforeldra sína hérna í Hæðarbyggðina. Þið vitið nú öll hversu örlát og gestrisin þessi öðlingshjón eru og mörg ykkar vita líka að ég get, á góðum degi, tekið hraustlega til matar míns. Þetta er stórhættuleg blanda. Tengdó vill alltaf eiga afgang en ég vil alltaf klára. Ég sat því við og kláraði matinn og tengdó keypti alltaf meira næst... og þannig gekk þetta koll af kolli þar til ég gat ekki meir. Ég var snöggur uppí 84 + get ég sagt ykkur. Þetta var reyndar svo slæmt að mig dreymdi oft að ég væri fastur í Hans og Grétu ævintýri og ég væri Hans.
Þessi árátta er svo líka alin upp í dótturinni... og það endaði náttúrulega með því að stoðgrind líkamans fór að gefa sig og ég sleit hásin snemma á þessu ári. Meiðslin má rekja beint til þeirra kræsinga sem hefur verið haldið að mér undan farin 12 ár og þeirra rúmlega 20 kg sem komin eru umfram kjörþyngd afreksmannsins. Ég get í raun kennt tengdamóður minni um það að ég fór aldrei á Ólympíuleika.
Næst kemur upp í huga minn óbilandi þjónustulund þín gagnvart börnunum þínum. Þú þreyttist seint á að skutla þeim hingað og þangað og sækja aftur. Ef það þurfti ekki að skutla þeim þá skutlaðir þú einhverju til þeirra eða sinntir erindum hingað og þangað fyrir þau. Eftir því sem þau þroskuðust og fóru að verða sjálfstæðari, þurftir þú ekki að sinna þessu þjónustustarfi eins mikið en tókst þá upp á því að skutla mér... og ef ég skildi tengdason númer tvö rétt um daginn þá ertu enn að sendast fyrir hann. Það er eins og þú hafir endalausan tíma í sólarhringnum til að sinna þessu öllu. Ég held reyndar að þetta sé gert af umhyggjunni einni saman og ég veit að við erum öll verulega þakklát fyrir alla greiðasemina.
Þessi árátta er hins vegar ekki alin upp í dótturinni en ég þarf hins vegar að skutla henni hingað og þangað. Tengdó, ég verð að kenna þér um það líka.
Þriðja atriðið sem flaug í gegnum huga minn er einlæg ást þín á Sorpu. Þú ert alltaf á Sorpu. Mig er farið að gruna að þú farir með hverja fernu og hverja dós fyrir sig þarna suðreftir. Auðvitað er þetta eitthvað sem aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar en þú veist að það má alveg koma með meira en eina og eina dós í einu.
Þetta gleymdist líka í uppeldinu... reyndar held ég að dóttirin hafi verið óalandi á þeim tíma sem Sorpa var stofnuð. Hugtakið Sorpa og tilgangurinn hefur hins vegar síast inn hjá dótturinni þér tókst það en hún hefur aldrei komið á Sorpu og hver heldur þú að þurfi alltaf að fara? Mikið rétt, ég og það finnst mér líka vera þér að kenna.
Í fjóðalagi minnist ég angistar og kvíðasvipsins í augum þínum þegar líða tekur að vori. Þú vilt nefnilega halda garðinum þínum fínum en þér finnst jafnleiðinlegt að vinna í honum. Það er líka af því að þú tekur alltaf þau verkefni að þér sem öðrum finnst leiðinlegust eins og að reita arfann og hreinsa mosann milli gangstéttarhellnanna. Ég gleymi því vori seint þegar þú varst alveg bakk í öxlinni og treystir þér ekki í mosann... Karlinn var þá fljótur til að kaupa sérstaka mosabrennara græju.
Uppeldið skilaði þessu alla leið og dóttirin hefur aldrei tekið annað í mál en að eiga veglegan, helst 500 fm garð. Ég er samt meira eins og þú, vil alveg hafa garðinn en nenni kannski ekki að liggja á hnjánum hálft sumarið að reita arfa.
Fimmta og síðasta atriðið í þessari ófullkomnu upptalningu verður að tengjast Bjargarstöndunum. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru Bjargarstandar það sem í daglegu tali kallast nammistandar. Þegar maður týnir tengdó í útlöndum þá þarf maður bara að þefa þessa standa uppi og nánast án undantekninga finnst hún fljótlega í nágrenninu. Einu skiptin sem þetta getur brugðist er á handverksmörkuðum því þar er hún í essinu sínu.
Þrátt fyrir það sem hér að framan er talið þá get ég ekki hugsað mér betri tengdamömmu. Ég get alltaf leitað til þín þegar dóttirin ofhleður mig verkefnum og þú tekur alltaf upp minn málstað í þeim ágreiningsefnum sem upp koma í hjónabandi mínu, sem er gott... við eigum þannig hvort annað að því við þurfum að búa með þeim!
Elsku tengdó takk fyrir mig og skál.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.