2008-12-12
og hefst þá geðveikin fyrir alvöru...
Fyrsti jólasveinninn kom í nótt sem leið. Einhvern veginn hefur Stekkjastaur alltaf verið í mestu uppáhaldi hjá mér en ég hef ekki hugmynd um hvers vegna.
Spiderman var samt ekki alveg sáttur í gærkvöldi þegar hann átti að setja skóinn í gluggann... dagatalið var nefnilega ekki búið og hann var alveg viss um að jólasveinarnir kæmu allir í einu á Aðfangadag. Eftir þó nokkrar fortölur og lestur tveggja jólasveinasagna féllst hann á að þetta væri í lagi og líklega kæmu þeir einn og einn síðustu dagana fyrir jól.
Skvísan var hins vegar alveg með þetta á tæru og sendi gamla karlinn upp á háaloft til að ná í forláta jólaskó sem henni var gefinn fyrir 6, 7 eða 8 árum síðan. Hún var svo vel undirbúin að hún var búin að skrifa óskalista...
1. Mamma Mia bíómynd
2. Narnia 2 bíómynd
3. Mandarínu eða eitthvað smotterí
Í morgun kom í ljós að Stekkjastaur er ekki mikið í kvikmyndabransanum og liður 3 var fyrir valinu og auðvitað var hún alsæl með það. Spiderman var rosalega ánægður með kubba-fjórhjólið sitt en vildi ekki sjá mandarínuna, ætlaði bara að gefa fóstrunum í skólanum að smakka... hann var samt mest upp með sér að jóli skyldi hafa klárað kökuna og mjólkina.
Stóra spurningin í dag er sú hvort Giljagaur fatti að þau verða ekki í sínum rúmum í kvöld? Gamla settið er nefnilega að fara í jólaboð og sílin verða hjá afa og ömmu... hvað gerist? Við skulum vona að 'spennan endi ekki í skúffelsi'.
Þ.
Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.
Hann vildi sjúga ærnar,
- þá var þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
- það gekk nú ekki vel.
höf. Jóhannes úr Kötlum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.