2008-12-15
Að fá hænu í skóinn...
Það var alger óþarfi að hafa áhyggjur... Giljagaur fattaði það að börnin gistu hjá afa og ömmu en ekki í sínum rúmum aðfaranótt laugardagsins.
Foreldrarnir fóru með vinnunni í jólahlaðborðsveislu. Veislan byrjaði reyndar uppúr hádegi þegar haldinn var hátíðlegur óvissubjórdagur. Óvissubjórdagur gengur út á það að allir kaupa 'skrítinn' bjór, eitthvað sem maður er ekki vanur að kaupa í kassa vís (s.s. ekki Stella, Egils, Víking, Carlsberg, Tuborg, osfrv), það verður að vera flaska og það verður að vera stór flaska. Þegar allir hafa laumast með flöskuna upp á kaffistofu í brúnum bréfpoka er dregið um flöskur og það má bara skipta innbyrðis ef maður fær sinn eigin. Nú eftir vinnu þurfti náttúrulega að þeysa heim og strauja því ég er ekki vanur að vera tímanlega í því að hafa mig til. Sílin sett í pössun til afa og ömmu og brunað að sækja farþegana sem ætluðu með okkur í kerru niður í bæ. Kokteill í bænum sem átti að vera hálftími en var meira einnoghálfur tími (týpískt) og að lokum sest til borðs á hinum rómaða veitingastað EinarBen. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið sami matseðill og ég fékk þarna um árið þegar ég fór með vinahópnum en mikið djö... er þetta gott. Það eina sem olli vonbrigðum var hreindýrið, stóð ekki undir væntingum. Þetta var heljarinnar veisla og rosalega gaman í alla staði.
Þegar við sóttum svo börnin daginn eftir fórum við að spyrjast fyrir um jólasveina heimsóknir. Að vanda var skvísan með allt á tæru en Spiderman hélt því fram að hann hafi fengið HÆNU í skóinn. Hænu!?!? kváði ég þá... já hann var viss um að hann hafi fengið hænu í skóinn. þegar betur var að gáð kom í ljós að hann hafi fengið Playmobil karl sem var ekkert líkur hænu. Þetta var bara það fyrsta sem skaut upp í kollinum á drengnum þegar hann gat ómögulega munað hvað hann hafi fengið frá jóla. Samt skrítið að það hafi verið hæna...
Þ.
Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
- Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.
Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.
höf. Jóhannes úr Kötlum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.