2008-12-15
Jólaball númer eitt...
Í gær var heljarinnar jóladansleikur á vegum leikskólans. Auðvitað ætlaði sú gamla að dressa Spiderman upp í sparifötin, glæný jakkaföt... abbababb... það gengur ekki. 4ra ára guttar á jólaballi eru ekki beint að sitja kjurrir og dansa þess á milli. Nei þeir eru meira í því að hlaupa um og skriðtækla hvern annan á göngunum. Af reynslunni (ég var einusinni 4ra ára gutti) klæddi ég drenginn í gallabuxur og jú hann var með bindi og í fínum jakka en ekki í sparijakkafötunum. Enda komst upp um ætlunarverk og ásetning drengsins þegar ég reyndi að troða honum í spariskóna (sem bæ ðe vei eru hvítir leddarar - ecco - geðveikir).
Spiderman: 'NEI pabbi, ekki í skó!'
Sá gamli: 'Hvað meinar þú? Þú getur ekki verið á sokkunum!'
Spiderman: 'Ég get ekki rennt mér í skónum, ég vil ekki skó'
En ég hafði betur í þetta skiptið og náði að troða honum í skóna enda jólasveinarnir á leiðinni inn á ballið. Og hvað er í gangi? Afhverju eru Hurðaskellir og Ketkrókur á barnaballi ÁÐUR en þeir koma til byggða? Mér finnst ótrúlegt að börnin sjái ekki í gegnum þetta. Þau eru kannski svo blinduð af græðginni sem við höfum alið upp í þeim... græðginni sem við höldum áfram að ala upp í þeim þrátt fyrir umræðuna í samfélaginu um gamla græðgisþjóðfélagið sem við viljum öll gleyma sem hraðast... það er bara svo erfitt... þetta er eins og að hætta að taka í vörina!
Eftir vel heppnað jólaball fórum við gömlu á jólatónleika KR og sílin sett í pössun til ömmu (það er svo mikið að gera á hátíð barnanna að þau eru alltaf í pössun). Stórgóðir tónleikar í alla staði. Það er eitthvað við karlakóra sem gerir það að verkum að ég sit stjarfur með gæsahúð á háu-tónunum (háværu). Mér finnst alltaf gaman að fara á tónleika hjá Karlakór Reykjavíkur og það skemmir ekki fyrir að afi Jón glansar fyrir miðju.
Eftir tónleikana sóttum við börnin og fengum auðvitað 'sad' með grænum baunum og öllu hjá ömmu A. Börnin voru svo drifin heim í háttinn enda annasöm helgi að baki. Eftir að hafa lesið hálfa söguna um Augastein (sem ég mæli eindregið með og nauðsynlegt er að lesa fyrir öll jól) varð ég að stressa mig á því að koma upp smá skrauti. Skvísan sofnaði um leið ein Spiderman var ekki á því. Ég held að jóli þurfi að fara að koma með jarðepli á drenginn. Vandamálið var bara að hann var búinn að vera rosalega góður alla helgina og marga daga þar á undan þannig að ég hefði sjálfur þurft að fara upp í Esju eða norður í Dimmuborgir og taka í lurginn á Þvörusleiki ef hann hefði gert slíka vitleysu.
Þ.
Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.
Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.
höf. Jóhannes úr Kötlum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.