2008-12-17
þessi var sá hræðilegasti í minningunni...
Ég man nú ekki eftir að hafa verið hræddur við jólasveina þegar ég var síli... kannski misminnir mig en ég held samt ekki, ég man ekki eftir neinum sögum um mig sem patta grenjandi út af jólasveininum. Ég man hins vegar eftir því að hafa reynt að toga í skeggið á þeim og þegar ég var aðeins eldri reyndi ég að komast að því hver væri þar á bakvið í raun og veru.
Ivan Rebroff óperusöngvari fékk að kenna á því eitt sumarið í sveitinni þegar hann kom í mat (sviðakjamma sem hann snerti ekki) til afa og ömmu. Ég hef ekki verið hár í loftinu þegar þessi bangsi reif mig upp og það fyrsta sem mér datt í hug var að kanna hvort skeggið væri ekta... sem það var.
Skvísan er svona... ég man ekki til þess að hún hafi nokkurn tíma verið hrædd við jóla... og ekki einusinni smeyk við Grýlu og Leppalúða (sem hún hefur hitt) - hún vorkennir þeim bara meira.
Spiderman er ekki svona. Ég er ekki að segja að hann grenji, man nú ekki eftir því, en honum er ekki sama. Jóli hefur oft komið með tré heim til okkar á Aðventunni og ég skrifaði einhvern tíma pistil um það að Spiderman væri hræddur við jólasveininn. Eitt skiptið stökk hann uppí glugga og var þar í öruggu skjóli frá jóla. Núna er hann farinn að færa sig upp á skaftið. Örlítið óöruggur til að byrja með en svo er hann geim... til í galsann, hrópa og kalla og syngja með.
Við erum því farnir að ræða Grýlu og Jólaköttinn meira við feðgarnir... það er meira spennandi. Nýjasta nýtt er að lesa heilu jólasögurnar fyrir svefninn og þá er sá gamli oft með leikræna tilburði þegar kemur að því að raddsetja sögupersónurnar... sílunum stendur ekki alltaf á sama og því þarf alltaf að klára sögurnar því þær enda jú alltaf vel. Annars myndu þau líklega ekki sofna.
Önnur frábær uppeldisaðferð? ég veit ekki...
Þ.
Næsta erindi jólasveinavísnanna hans Jóhannesar er um þann sem mér fannst (í minningunni) alltaf óhugnalegastur, kannski ásamt Gluggagægi. Myndskreytingin í jólavísnabókinni (sem á að vera til á öllum heimilum, við eigum 3jár, ég á eina síðan 1978 og börnin sitthvora) gefur af sér gæsahúð...
Sá sjötti, Askasleikir,
var alveg dæmalaus. -
Hann framundan rúmunum
rak sinn ljóta haus.
Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.
höf. Jóhannes úr Kötlum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.