2008-12-22
Meiriháttar jólaundirbúningur
Sunnudagurinn var tekinn snemma. Allsherjar jólaundirbúningur var skipulagður. Karlinn sótti sílin eldsnemma (10:00) og við byrjuðum í búðarrápi. Það er best að versla snemma á morgnana í Reykjavík. Við þurftum að kaupa allt í jólagrautinn og svo eitt leyndó.
Þegar heim var komið byrjuðum við á því að skella upp trénu. Í ár var farið varlega í stærðirnar því undanfarin ár hef ég þurft að saga af trjánum því ég held alltaf að það sé hærra til lofts en það raunverulega er. Núna smellpassar það... stærra en ég þegar það er komið í fótinn... það er viðmiðið. Sílin sáu svo alfarið um að skreyta og ég verð að segja að röðun kúlna og fígúra er nær óaðfinnanleg (þegar ég horfi á þetta sem sérfræðingur í jólatrjáaskreytingum).
Næst á dagskrá, piparkökuhús. Krakkarnir vildu náttúrulega gera kökur líka þ.a. þegar það kom að karlinum að gera hús var heldur lítið til af byggingarefni. Sú gamla þurfti því að hræra í nýtt. Þetta árið var ákveðið að gera húsið eftir minni, engin fyrirmynd og ekkert snið. Ég get vottað það að hitt er betra. Ákveða fyrirfram hvað hliðarnar eiga að vera stórar og þá sérstaklega þakið. Eftir kakósúpu át og sturtuviðgerðir var svo hrært í liti og krakkarnir skreyttu húsið. Annað eins hús hefur ekki sést. Reyndar vantar aðra þakplötuna (var of lítil) en ég lít á það sem fídus því nú fylltum við húsið af kökum og þá er þetta eins og þetta hefði átt að vera svona, 'hóm-meid' piparkökubox.
Rétt fyrir svefninn reif ég svo vatnslásinn á vasknum inná baði í sundur og gerði við stíflu og leka... bara svo það sé skjalfest að ég geri stundum eitthvað á þessu heimili.
Þ.
Ellefti var Gáttaþefur,
- aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.
Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.
höf. Jóhannes úr Kötlum
Athugasemdir
þú átt inni!
Þórir Steinþórsson, 23.12.2008 kl. 14:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.