Þá er það búið í bili...

Hátíð áts og leti er nú að mestu yfirstaðin. Get ég hvorki kvartað yfir því að hafa ekki fengið neitt að borða eða fengið að hvíla mig að vild. Eina vandamálið við þetta allt saman er að geta ekki hvílt sig fyrir áti eða öfugt. Ég hefði reyndar viljað lesa meira en vildi hvorki fórna letinni né átinu til þess. Það er nógur tími framundan til að lesa...

Sílin voru heldur betur kát þessi jólin. Kertasníkir breytti til og gaf þeim ný náttföt og mömmunni undirföt. Skvísan er á því að þessi Kertasníkir sé nú frekar skotinn í þeirri gömlu því hann hefur gefið henni sexí undirföt svo lengi sem hún man.

Aðfangadagskvöld var ekkert nema yndislegt. Fyrir utan eitt atvik þ.s. ég var næstum búinn að eyðileggja steikina og skamma konuna fyrir í þokkabót... sem betur fer var mér nú fyrirgefið sú yfirsjón enda var ég óendanlega sorrý yfir því rugli öllu saman. Maturinn var æðisgengilega góður, humarinn í forrétt eins og á besta restúrant, hreindýrið yfirnáttúrulega gott með öllu tilheyrandi og möndlugrauturinn í eftirmat hefur sjaldan verið betri.

Þá eru það pakkarnir. Spiderman hefur sjaldan verið spenntari. Þetta voru nú eiginlega fyrstu spenningsjólin því hann var sárlasinn í fyrra og jólin þar áður lék hann sér meira með pappírinn en gjafirnar. Hann var helst til of snöggur að rífa pakkana undan trénu og hljóp með þá til einhvers sem kann að lesa og spurði hvort þetta væri ekki örugglega 'Frá mér'. Hann vildi endilega að pakkarnir til hans væru frá honum... frekar skondið. Auðvitað áttu sílin meira en helminginn af gjöfunum og það var frábært að fylgjast með þeim rífa þá upp. 30ára draumur þess gamla rættist þegar sonurinn tók upp pakkann frá foreldrunum... forláta bílabraut. Auðvitað mátti ekki kaupa þá minnstu en sú stærsta var heldur ekki tekin... þessi þekur þó nærri 10 fermetra og krafturinn í bílunum til að byrja með var slíkur að þeir þutu upp um alla veggi þegar þeir þeyttust útaf brautinni í beygjunum og sveigjunum. Skvísan er orðin öllu dannaðri í þessu þó að spenningurinn hafi skinið í gegn. Milli þess sem sá gamli lék sér að bílabrautinni hljóp hann á efri hæðina og söng ABBA í singstar-græjunni sem skvísan fékk.

Þetta voru æðisleg jól.

Þ.

Þrettándi var Kertasníkir,
- þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.

Hann elti litlu börnin
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.

höf. Jóhannes úr Kötlum

Það er þó eitt sem verður að athuga og það er tímasetningin á þessum gæjum. Samkvæmt þessu kemur sá síðasti á Aðfangadagskvöld þ.a. við erum líklega búin að færa þessa gaura einn dag fram í tímann. Afhverju gerðum við það? Er það útaf pakkasýsteminu og skódæminu? Ættum við ekki að færa þá aftur til baka?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband