2009-01-19
hef næstum engu gleymt...
Ég fór með sílin á skauta á laugardaginn sem er ekki frásögu færandi nema ég hef líklega ekki stigið á skauta (á svelli) í rúm 20 ár. Ég gat ekki skorast undan pressunni þrátt fyrir vafasamar hásinar og ónýt hné. Það er samt ekki eins og mér hafi dottið þetta í hug - 'Hey, förum á skauta' - nei þetta var hópferð á vegum körfuknattleiksdeildar Hauka þ.s. skvísan stundar æfingar.
En að skautunum. Spiderman hafði aldrei farið á skauta en skvísan hafði prófað það fyrir um 4rum árum auk þess sem hún er liðtæk á línuskautum. Spiderman var hins vegar viss um að hann væri mjög góður á skautum og því ekkert líkur föður sínum í þeim efnum (eða þannig). Ég aðstoðaði þau í skautana áður en ég batt par undir iljarnar á sjálfum mér. Í kraðakinu týndi ég syninum fljótlega. Þar sem ég stóð upp og skimaði í allar áttir rak ég augun í hann, kominn út á mitt svellið... á rassinum. Ég dreif mig því að reima á mig vinstri skautann og æða út á svellið til að bjarga Spiderman. Honum fór fljótlega að leiðast það að geta ekki hoppað í hringi... eða standa í lappirnar yfir höfuð og dreif sig því aftur í kuldaskóna. Hann er nefnilega ágætur í því að skriðtækla. Ég skautaði því nokkra hringi með skvísunni en Spiderman hljóp um svellið og skriðtæklaði.
Ég komst að því að skautar eru eins og hjól, lærir það einu sinni og gleymir ekki aftur. Ég gat meira að segja skautað aftur á bak og gert allar helstu kúnstir... nema að stoppa. Ég treysti mér ekki í skrans-stoppið og varð því að taka 'ojojojojojojoj' og klessa á veggina til að stoppa.
En 'att ðe end off ðe dei' þá eru skautar í Skautahöllinni hin ágætasta fjölskylduskemmtun.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.