2009-03-10
Dótadagur!!!
Það kann ekki góðri lukku...
Það að láta gamla sjá um hlutina getur verið þægilegt en oftast er það klúður. Skipulagið er venjulega þannig á heimilinu að ég sé um að koma Spiderman í leikskólann og mamma hans sækir hann oftast. Það hefur gengið vel og ég gleymi næstum aldrei töskunni með aukafötunum og pollagallanum og stígvélunum og þessu helsta sem þarf að vera með í upphafi hverrar viku. Það hefur komið fyrir að ég hafi gleymt þessu en ekki oft, ég gleymi oftar ef það er eitthvað auka sem þarf að taka með sem ekki er búið að setja í töskuna fyrir mig áður en ég legg af stað. Ég gleymi líka iðulega að koma skilaboðum milli staða, ef það er eitthvað sem mamma Spidermans vill koma á framfæri við skólann eða kennararnir (heita ekki fóstrur í dag) vilja koma til skila heim til Spidermans (þetta einskorðast ekki við leikskólann, þetta er almenn skilaboðafötlun hjá mér).
Í gær brá svo við að ég sótti Spiderman líka vegna anna móður hans. Ekkert mál, geri þetta stundum líka. Svo leið og beið og næsti dagur rennur upp með sól í heiði - NEI ég gleymdi ekki að sækja hann!! - við örkum af stað í leikskólann. Þegar þangað er komið er mér tilkynnt pent að það sé DÓTADAGUR. Ha?? af hverju sagði mér enginn frá því í gær?? Hvað er að þessu liði. Jú tilkynningar höfðu verið hengdar upp á töflur og veggi skólans auk þess sem miði lá í hólfi drengsins þar sem skýrt var tekið fram að það væri dótadagur. Annar veikleiki hjá mér. Ég er ekki góður í tilkynningum, hvorki að sjá þær né lesa þær ef ég sé þær, hvað þá að koma upplýsingunum til mömmu Spidermans.
Spiderman tók þessu ótrúlega vel. Pirraði sig ekkert rosalega mikið á pabba sínum. Ég reyndar var ótrúlega snöggur að huxa miðað við að klukkan var rétt rúmlega 08:00 og bauðst til að skutlast heim og sækja eitthvað spennandi. 'Hvað á ég að sækja fyrir þig karlinn minn?' - 'Eldbílinn sem ég fékk í skóinn!' - Hvaða bíll er það? Sjitt, hef ekki hugmynd... allaveganna ég bruna heim og sæki alla bílana sem bera einhvern vott um eld eða eldskreytingar. Arka niðreftir aftur og hafði þá rambað á réttan bíl (enda með 10 stk í fanginu) en ég er viss um að hann hefur ekki fengið þennan í skóinn.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.