2009-03-16
Annar spotti...
Fyrir þá sem ekki vita það nú þegar þá er 3ja sílið á leiðinni.
Sónar í morgun og það er eins 100% og hægt er að hafa það í sónar (vilja ekki gefa afdráttarlausari svör) að það er nýr skæruliði á leiðinni. Það er mikið búið að spekúlera í þessu innan fjölskyldunnar og hef ég venjulega verið talinn versti spámaðurinn.
Fyrsta barn - ég var alveg á því að það væri stelpa til að byrja með eða þangað til ég sá sónarmyndina þá skipti ég um skoðun og var klár á því að þetta væri strákur. Við vildum ekki fá að vita kynið í það skiptið en mér fannst þetta bara eitthvað svo strákalegt... ekki það að ég væri einhver sérfræðingur í sónarmyndum (hafði nú ekki séð þær margar ef einhverjar fyrir þennan tíma). En viti menn, stelpa var það.
Annað barn - ég var alveg viss um að það væri strákur í upphafi en svo fékk ég bakþanka... fór að hugsa... ég var nú á þessum tíma soddan 'stelpu-pabbi' þ.s. skvísan snéri mér um fingur sér eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég fór því að hallast að því að þetta væri stelpa. Annað barn og við vildum vita kynið. Auðvitað var það strákur.
Þriðja barn - ég var sannfærður að nú kæmi önnur stelpa, veit ekki afhverju en svona var það bara... þangað til ég fór að pæla aðeins meira í þessu... nei líklega er þetta strákur. Og af því að ég var í sama mynstri og með fyrsta barn var ég farinn að telja mér trú um að þetta væri stelpa þó ég héldi að þetta væri strákur. En hvað haldiððði? Strákur að öllum líkindum.
Þetta minnir mig óþægilega á stærðfræðikennarann minn í 4 bekk í MR sem hafði aðeins eitt ráð fyrir okkur þegar kom að prófum (vorum að læra sinus og kosinus) 'Það er alltaf öfugt við það sem þú heldur.'
Að öðru... Þvottavélin okkar dó aftur og enn fyrir síðustu helgi. Ég er tiltölulega nýbúinn að fá hana úr viðgerð en nú kom upp önnur bilun. Þessi vél hefur dugað okkur í rúm 9 ár og samkvæmt sérfræðingum er meðallíftími þessara tækja ekki nema 7 og þannig réttlætti ég kaup á nýrr vél. Þvílíkur munur. Ekki datt mér í hug að þvottavélar gætu verið nánast hljóðlausar. Ég elska þessa nýju vél. Sérstaklega af því að ég er ekki búinn að læra á hana enn þá og ÞARF að láta þvo af mér. Hvað haldiðððði að ég komist upp með það lengi?
Gamla vélin fór á haugana. Ég var mikið búinn að pæla í því hvort ég ætti að fá þá nýju senda heim fyrir 2.500 ISK og múta svo bílstjóranum til að taka þá gömlu með sér fyrir 2.000 ISK (gangverðið í dag) en svo kom nýskan upp í mér auk þess sem þvotturinn var farinn að hrannast upp eftir vikuna og ég gat ekki beðið fram á mánudag (í dag) til að fá hreinar nærur. Ég fékk því jeppann hjá tengdó og skutlaðist á laugardaginn og sótti vélina. Verslunarstjórinn vippaði henni með mér í skottið. Nágranninn hélt á gömlu vélinni með mér út og nýju inn (gott að eiga góða granna) og svo renndi ég upp á Sorpu með vélina upp á von og óvon um að einhver myndi skutla henni með mér í gám. Ég var þá alltaf með plan B sem var að skilja vélina eftir í jeppanum hjá tengdó og 'þykjast' hafa gleymt að koma við á Sorpu. En Sorpa stóð fyrir sínu og einn rúmlega 60tugur kubbur tók hana nánast á eigin spýtur úr skottinu og vippaði henni í gáminn. Snillingar á sorpu.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.