2006-12-12
Hvað er málið með jólaseríur?
Á hverju ári lýsi ég því yfir að ég muni ekki fara í það að reyna finna út úr því hvaða pera er farin í seríunum mínum, heldur henda þeim og kaupa nýjar.
Það er viðhöfn þegar kallinn skellir sér upp á háaloft að sækja seríu-kassana... fyrst þarf að finna þá í kassaflóðinu á loftinu, svo þarf að drösla þeim niður, síðan þarf að greiða úr flækjunni því þó að ég gangi alltaf frá þeim á snyrtilegan hátt þá flækjast þær einhvern veginn yfir árið (skiletteggi). Þegar búið er að leggja undir sig aðra hæðina er stungið í samband, ein í einu. Þetta árið kviknaði ekki á mörgum heilum seríum, nokkrum hálfum en mest kviknaði ekki... EN af því að ég átti perur og gat notað perur úr handónýtum seríum, tók ég þá yfirveguðu ákvörðun um að reyna að laga nokkrar hálfar. Hvað er að mér? Þar fóru nokkrir klukkutímar í að rífa perur úr, setja perur í, rífa perur úr, setja perur í... Að lokum endaði ég þó með einar tvær eða þrjár heilar (heildar sparnaður í krónum undir 1000).
Dýrar spariseríur, með einhverju glingri, eru ekki góð fjárfesting. Þær fara yfirleitt ekki í gang árið eftir. Ég komst að því. Það eru sennilega einu seríurnar sem það borgar sig að leggja vinnu í að skipta perunum út. Ég sat því lengi yfir þessum skrautmunum til að finna út hvernig ég gæti tekið perurnar úr svo ég gæti haft þær með mér í Byko til að kaupa alveg eins. Ég komst hins vegar að því að á öllum spariseríunum mínum eða inn í kössunum (og þá meina ég inn í) stendur 'The lamps are not replaceable' - mikið var ég glaður!!
Svo þurfti náttúrulega að hengja þetta allt saman upp og finna út hvað þurfti að kaupa til viðbótar því það verða að vera seríur í flestum gluggum heimilisins. Til þess nota ég gríðarlega skemmtilega uppfinningu sem sogblöðkur eru. Það var fyrir nokkrum árum sem ég kynntist þessari tækni og hef verið að bæta við mig blöðkum alla tíð síðan. Sumar blöðkurnar eru því komnar til ára sinna... og plastið stökkt eftir geymsluna... svo þegar ég byrjaði að þrýsta plastinu að glugganum brotnaði önnur hver festing... það var ekki til að bæta skap mitt þennan eftirmiðdag.
Jæja upp fóru seríurnar, þ.e.a.s. allar heilu seríurnar, og húsið fylltist seríuljóma. Svo dimmdi. Það slokknaði á þeim, einni og einni. Ertu ekki að grínast í mér? Nú var ég að verða kex... fór að huxa um það þegar ég ákvað að taka þessa yfirveguðu ákvörðun um að henda ekki seríunum og kaupa nýjar... hefði átt að gera það... hefði sparað mér nokkur reiðiköstin og pirring. Fór því í Byko og keypti gommu af seríum.
Ég er því bæði búinn að eyða geðveikum tíma í þetta helv... og ógeðslega miklum pening og er gríðarlega sáttur...
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.